Jón Þór Birgisson, betur þekktur sem Jónsi í Sigur Rós, og Alex Somers semja tónlistina í nýrri bandarískri þáttaröð sem kallast Manhattan. Þetta kemur fram á breska fréttavefnum NME. Þættirnir fara í sýningu í júlímánuði, á bandarísku sjónvarpsstöðinni WGN.
Þáttaröðin fjallar um kapphlaupið við smíði kjarnorkusprengju á fimmta áratug síðustu aldar, en þau John Benjamin Hickey, Olivia Williams og Daniel Stern fara með aðalhlutverkin á þáttunum.
Þættirnir eru skrifaðir af Sam Shaw og þá leikstýrir Emmy-verðlaunahafinn Thomas Schlamme þáttunum.
Jónsi og Alex hafa unnið saman í ýmsum verkefnum og hafa samið tónlist saman undir nafninu Jonsi & Alex síðan árið 2003. Saman eru þeir best þekktir fyrir verkið Riceboy Sleeps. Þá túruðu þeir saman þegar þeir fylgdu sólóplötu Jónsa, Go, eftir árið 2010.
Jónsi og félagar hans í Sigur Rós komu á dögunum fram í þáttunum Game of Thrones, en þar spilaði sveitin sína útgáfu af þjóðlagi úr þáttunum, sem heitir The Rains of Castamere.
Semja tónlist fyrir bandaríska þætti
