Lífið

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík í útrás

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, telur að það felist frábær tækifæri í samstarfi Íslendinga við nágrannaþjóðirnar.
Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, telur að það felist frábær tækifæri í samstarfi Íslendinga við nágrannaþjóðirnar. fréttablaðið/GVA
„Við eigum heilmikið sameiginlegt með þessum nágrannaþjóðum okkar og höfum lengi velt því fyrir okkur hvernig við getum þróað góð tengsl okkar á milli,“ segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík, RIFF, en hátíðin hefur hlotið styrk til að vinna með kvikmyndargerðarmönnum og fagfólki á Grænlandi og í Færeyjum.

„Við höfum kallað þetta RIFF í útrás. Í þessum löndum eru í raun engar starfandi alþjóðlegar kvikmyndahátíðir líkt og RIFF og því vildum við bæta tengslin á milli landanna og leyfa þeim að upplifa brot af því besta hjá RIFF,“ segir Hrönn. Búið er að opna sérstaklega fyrir umsóknir kvikmynda frá þjóðunum tveimur fyrir næstu hátíð sem fram fer 25. september til 5. október og verður tekið við umsóknum til 15. júlí.

„Við skynjum að það er heilmikil gerjun í þessum bransa í báðum löndum og margt spennandi að gerast. Við ætlum því ekki bara að fá kvikmyndagerðarfólkið hingað til lands heldur ætlum við einnig að fara til Grænlands og Færeyja og sýna kvikmyndir í samvinnu við heimamenn.

Ég held að þetta sé ofboðslega skemmtilegt og eins tel ég að það felist frábær tækifæri í þessu fyrir kvikmyndagerðarfólk frá löndunum tveimur, sem og íslenskt kvikmyndargerðarfólk. Þar að auki verður gaman að fá að kynnast þessum þjóðum enn betur.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×