Vínspursmálið Guðmundur Andri Thorsson skrifar 21. júlí 2014 00:00 Með vissu millibili ranka sjálfstæðismenn við sér og muna að þeir eru flokkur sem aðhyllist frelsi í viðskiptum. Í kjölfarið leggja þeir alltaf fram frumvarp um að heimilt verði að selja vín í matvöruverslunum. Og við rjúkum upp til handa og fóta, voða spennt, og förum að ræða frumvarpið fram og til baka, eins og til standi að greiða einhvern tímann atkvæði um það. Og nú, á miðju sumri, þegar Alþingi er í sumardvala, er þetta vínsöluspursmál rætt af mikilli ákefð. Af hverju erum við að tala um það núna? Það er til þess að við tölum ekki um annað.Allt hitt Við tölum þá ekki á meðan um það hvernig sjálfstæðismenn hafa svikið eitt helsta kosningaloforð sitt um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður að ESB. Flokkurinn klofnaði fyrir vikið – frjálslynt fólk, sem vill hafa áhrif á líf sitt sjálft, streymdi úr flokknum, sem bregst þá við með allsherjar átaki í vínspursmálinu; og býður líka upp á ameríska stórmarkaði, svo sem eins og í sárabætur fyrir það að fá aldrei að vita hvað hugsanleg Evrópusambandsaðild kann að þýða fyrir lífskjör almennings. Á meðan við rökræðum vínspursmálið fjálglega gæti líka farið svo að við gleymdum því að sjálfstæðismenn standa nú um mundir í því að leggja niður heilbrigðisstofnanir víða um land. Það er byggðastefna í verki. Þótt framsóknarmenn ætli að skipa Hafnfirðingum að flytja til Akureyrar, vilji þeir halda vinnu sinni, þá er þetta eiginlega miklu afdrifaríkari byggðastefna en slíkur flutningur, rétt eins og kvótakerfið (sem allir stóru flokkarnir fjórir bera reyndar ábyrgð á) hefur eytt grónum byggðum. Á meðan við ímyndum okkur að sjálfstæðismenn berjist fyrir skýlausum rétti okkar til vínkaupa hvar og hvenær sem okkur lystir – og þyrstir – er ekki ósennilegt að við gleymum því að nýlega tók formaður flokksins upp á því greiða Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni milljónir af opinberu fé til þess að hann geti lagst í rannsóknir á hugmyndum sínum um orsakir Hrunsins; en eins og hvert mannsbarn gæti sagt Bjarna Benediktssyni telur Hannes að Hrunið hafi alls ekki og ekki í nokkrum skilningi verið Davíð Oddssyni að kenna. Við gætum líka hugsanlega gleymt að fylgjast með því hvernig sjálfstæðismenn eru nú í óða önn að reka bankastjóra Seðlabankans fyrir þá ósvinnu að kæra Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum, en við því hefur þetta sjávarútvegsfyrirtæki brugðist með því að kæra dómara og láta eins og það sé yfirleitt svívirða að málið komi fyrir dómstóla enda sé Samherji yfir landslög hafinn. Til virðist standa að ráða í Seðlabankann annaðhvort einn kunnasta brauðmolasinna landsins og öfgafullan andstæðing velferðarsamfélagsins – eða hagfræðing sem kunnur hefur orðið fyrir að skrifa skýrslu um prýðilega stöðu íslensku bankanna árið 2007. Og á meðan við þráttum fram og til baka um þessi vínkaupaspursmál gæti okkur jafnvel yfirsést hvernig sjálfstæðismenn halda hlífiskildi yfir pólitískum aðstoðarmanni innanríkisráðherra sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma sendi á sínum tíma völdum fjölmiðlum trúnaðarupplýsingar um erlendan hælisleitanda og skáldaði upp ávirðingar þegar upplýsingarnar sjálfar reyndust ekki nógu krassandi til að útmála þennan mann sem illmenni sem ekki ætti skilið eðlilega landvist hér í ríki réttlátra. Sjálfstæðismenn ráða. Sjálfstæðismenn stjórna. Þeir nota völd eins og fólk sem er vant því að hafa hlutina eftir sínu höfði; og það sé hin náttúrulega skipan hlutanna að þeir hafi völdin. Valdaflokkurinn yfir Íslandi sem aðhyllist frjálsræði að því marki að þeir stjórni því.En vínspursmálið? En vínspursmálið? Hvað um það? Þetta er álitamál. Áfengi er hreint ekki eins og hver önnur matvara – að minnsta kosti ekki hér á landi. Það er vímugjafi. Og alkóhólismi hefur verið þjóðarböl á Íslandi um aldir og naumast til sú fjölskylda sem ósnortin er af honum. Skiptir það engu máli? Eigum við að láta okkur standa á sama um það? Eða eigum við sem samfélag að segja sem svo: áfengi hefur haft svo afgerandi áhrif á líf margra landsmanna – og samfélagið í heild – að rétt er að hver og einn sem aflar sér þess þurfi að gera sér sérstaka ferð til þess; þurfi að hafa örlítið fyrir því að nálgast það; þurfi að hugsa sig um. Það fólk sem vill geta drukkið hvítvínsglas með matnum og eitt á eftir í kvöldsólinni – og ekki meir – verður þá að una því að geta ekki kippt flösku með sér í stórmarkaðnum heldur verður að rölta í ríkið. Er það erfitt? Þar taka á móti manni sérþjálfaðir sölumenn sem hjálpa manni að velja vín sem hentar hverju sinni, í stað þess að innkaupastjórar Baugs eða annarra einokunarrisa kaupi ofan í okkur öll tvær, þrjár tegundir að sínum geðþótta. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór Hefur sálfræðileg meðferð áhrif á líkamlegt heilbrigði? Rúnar Helgi Andrason Skoðun Miskunnsami nýmarxistinn Kári Allansson Skoðun
Með vissu millibili ranka sjálfstæðismenn við sér og muna að þeir eru flokkur sem aðhyllist frelsi í viðskiptum. Í kjölfarið leggja þeir alltaf fram frumvarp um að heimilt verði að selja vín í matvöruverslunum. Og við rjúkum upp til handa og fóta, voða spennt, og förum að ræða frumvarpið fram og til baka, eins og til standi að greiða einhvern tímann atkvæði um það. Og nú, á miðju sumri, þegar Alþingi er í sumardvala, er þetta vínsöluspursmál rætt af mikilli ákefð. Af hverju erum við að tala um það núna? Það er til þess að við tölum ekki um annað.Allt hitt Við tölum þá ekki á meðan um það hvernig sjálfstæðismenn hafa svikið eitt helsta kosningaloforð sitt um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður að ESB. Flokkurinn klofnaði fyrir vikið – frjálslynt fólk, sem vill hafa áhrif á líf sitt sjálft, streymdi úr flokknum, sem bregst þá við með allsherjar átaki í vínspursmálinu; og býður líka upp á ameríska stórmarkaði, svo sem eins og í sárabætur fyrir það að fá aldrei að vita hvað hugsanleg Evrópusambandsaðild kann að þýða fyrir lífskjör almennings. Á meðan við rökræðum vínspursmálið fjálglega gæti líka farið svo að við gleymdum því að sjálfstæðismenn standa nú um mundir í því að leggja niður heilbrigðisstofnanir víða um land. Það er byggðastefna í verki. Þótt framsóknarmenn ætli að skipa Hafnfirðingum að flytja til Akureyrar, vilji þeir halda vinnu sinni, þá er þetta eiginlega miklu afdrifaríkari byggðastefna en slíkur flutningur, rétt eins og kvótakerfið (sem allir stóru flokkarnir fjórir bera reyndar ábyrgð á) hefur eytt grónum byggðum. Á meðan við ímyndum okkur að sjálfstæðismenn berjist fyrir skýlausum rétti okkar til vínkaupa hvar og hvenær sem okkur lystir – og þyrstir – er ekki ósennilegt að við gleymum því að nýlega tók formaður flokksins upp á því greiða Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni milljónir af opinberu fé til þess að hann geti lagst í rannsóknir á hugmyndum sínum um orsakir Hrunsins; en eins og hvert mannsbarn gæti sagt Bjarna Benediktssyni telur Hannes að Hrunið hafi alls ekki og ekki í nokkrum skilningi verið Davíð Oddssyni að kenna. Við gætum líka hugsanlega gleymt að fylgjast með því hvernig sjálfstæðismenn eru nú í óða önn að reka bankastjóra Seðlabankans fyrir þá ósvinnu að kæra Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum, en við því hefur þetta sjávarútvegsfyrirtæki brugðist með því að kæra dómara og láta eins og það sé yfirleitt svívirða að málið komi fyrir dómstóla enda sé Samherji yfir landslög hafinn. Til virðist standa að ráða í Seðlabankann annaðhvort einn kunnasta brauðmolasinna landsins og öfgafullan andstæðing velferðarsamfélagsins – eða hagfræðing sem kunnur hefur orðið fyrir að skrifa skýrslu um prýðilega stöðu íslensku bankanna árið 2007. Og á meðan við þráttum fram og til baka um þessi vínkaupaspursmál gæti okkur jafnvel yfirsést hvernig sjálfstæðismenn halda hlífiskildi yfir pólitískum aðstoðarmanni innanríkisráðherra sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma sendi á sínum tíma völdum fjölmiðlum trúnaðarupplýsingar um erlendan hælisleitanda og skáldaði upp ávirðingar þegar upplýsingarnar sjálfar reyndust ekki nógu krassandi til að útmála þennan mann sem illmenni sem ekki ætti skilið eðlilega landvist hér í ríki réttlátra. Sjálfstæðismenn ráða. Sjálfstæðismenn stjórna. Þeir nota völd eins og fólk sem er vant því að hafa hlutina eftir sínu höfði; og það sé hin náttúrulega skipan hlutanna að þeir hafi völdin. Valdaflokkurinn yfir Íslandi sem aðhyllist frjálsræði að því marki að þeir stjórni því.En vínspursmálið? En vínspursmálið? Hvað um það? Þetta er álitamál. Áfengi er hreint ekki eins og hver önnur matvara – að minnsta kosti ekki hér á landi. Það er vímugjafi. Og alkóhólismi hefur verið þjóðarböl á Íslandi um aldir og naumast til sú fjölskylda sem ósnortin er af honum. Skiptir það engu máli? Eigum við að láta okkur standa á sama um það? Eða eigum við sem samfélag að segja sem svo: áfengi hefur haft svo afgerandi áhrif á líf margra landsmanna – og samfélagið í heild – að rétt er að hver og einn sem aflar sér þess þurfi að gera sér sérstaka ferð til þess; þurfi að hafa örlítið fyrir því að nálgast það; þurfi að hugsa sig um. Það fólk sem vill geta drukkið hvítvínsglas með matnum og eitt á eftir í kvöldsólinni – og ekki meir – verður þá að una því að geta ekki kippt flösku með sér í stórmarkaðnum heldur verður að rölta í ríkið. Er það erfitt? Þar taka á móti manni sérþjálfaðir sölumenn sem hjálpa manni að velja vín sem hentar hverju sinni, í stað þess að innkaupastjórar Baugs eða annarra einokunarrisa kaupi ofan í okkur öll tvær, þrjár tegundir að sínum geðþótta.