Gagnrýni

Spuni út frá orðum áhorfenda

Sigríður Jónsdóttir skrifar
 "Fyndnustu atriði kvöldsins spruttu fram á sjónarsviðið þegar leikararnir voru óhræddir við að gera grín að sjálfum sér,“ segir í dómnum.
"Fyndnustu atriði kvöldsins spruttu fram á sjónarsviðið þegar leikararnir voru óhræddir við að gera grín að sjálfum sér,“ segir í dómnum. Fréttablaðið/Andri Marinó
Spunaverk: Haraldurinn í Tjarnarbíói

Hluti af leiklistarhátíðinni Lókal



Spunaformið er aftur að hasla sér völl á Íslandi eftir töluverða lægð á síðustu árum. Á meðan Íslandsmót í spuna er haldið í Frystiklefanum á Snæfellsnesi þá sýnir spunahópurinn Haraldurinn afrakstur vinnu sinnar í Tjarnabíói á alþjóðlegu sviðslistahátíðinni Lókal.



Haraldurinn er ekki einungis nafnið á hópnum, sem mætti endurskoða til að einfalda hlutina, heldur einnig nafnið á spunaaðferðinni sem leikararnir notast við.

Formið (The Harold á ensku) á sér rætur Bandaríkjunum, aðallega í Chicago og New York, og er svokallaður langspuni þar sem hópurinn notar eitt orð frá áhorfendum til að spinna 30 - 40 mínútna atriði.

Hópurinn sem sýndi á föstudaginn samanstóð af tólf einstaklingum sem hafa æft spuna af þessu tagi undir handleiðslu leikkonunnar Dóru Jóhannsdóttur síðustu mánuði. Þeir sýndu opinberlega í fyrsta skipti á Menningarnótt þannig að hópurinn er að taka sín fyrstu skref fyrir framan áhorfendur. Hann á hrós skilið fyrir þor og frumkvæði.



Grínspuni er nefnilega flóknara fyrirbæri en virðist vera í fyrstu. Uppbygging atriðanna skiptir gríðarlega miklu máli og ekki er nóg að stóla á dónalega brandara né rembast við að leita að sniðugri lokalínu.



Gullna reglan um að sýna ekki en segja frá á sérstaklega vel við þetta tiltekna form. Eins og gott uppistand þá verður sviðslistafólkið að vera á tánum, tilbúið að taka áhættu og fagna mistökum.

Fyndnustu atriði kvöldsins spruttu fram á sjónarsviðið þegar leikararnir voru óhræddir við að gera grín að sjálfum sér eða settu fram snjöll tilboð sem auðvelt var að nota í skemmtilega senu.



Sýningin verður ekki metin út frá stjörnugjöf þar sem þessi skemmtilegi hópur er tiltölulega nýbyrjaður í þjálfun. Þrátt fyrir nokkra veika punkta voru mörg atriði alveg sprenghlægileg. Frekari leikreynsla, áhættumeiri tilraunir og fleiri mistök munu gera þennan hóp enn þá betri.



Niðurstaða: Áhugavert leikhúsform sem vert er að fylgjast með og hópurinn á frábæra spretti þegar vel tekst til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×