Gagnrýni

Glæsilegur konsert, fúl sinfónía

Jónas Sen skrifar
Höfundur og flytjandi „Einar Jóhannesson var frábær. Konsertinn eftir Svein Lúðvík er einn allra besti íslenski einleikskonsert sem ég hef hlýtt á.“
Höfundur og flytjandi „Einar Jóhannesson var frábær. Konsertinn eftir Svein Lúðvík er einn allra besti íslenski einleikskonsert sem ég hef hlýtt á.“ Vísir/Vilhelm
Tónlist:

Sinfóníuhljómsveit Íslands

Stjórnandi: Rumon Gamba

Verk eftir Svein Lúðvík Björnsson, Vincent d'Indy og Erick Wolfgang Korngold á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu fimmtudaginn 6. nóvember. Einleikari: Einar Jóhannesson.



Ég er með góðar fréttir og slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið fyrir hlé. Slæmu fréttirnar eru sömu tónleikar eftir hlé.

Byrjum á góðu fréttunum. Tónleikarnir hófust á svokölluðum hljómsveitarforleik eftir Vincent d'Indy sem bar nafnið Herbúðir Wallensteins. Þar er vísað í hluta úr þríleik eftir þýska skáldið Schiller. Þríleikurinn fjallar um atburði sem gerðust í 30 ára stríðinu, í baráttu kaþólikka og mótmælenda á sautjándu öld. Wallenstein var herforingi og tónlistin eftir d'Indy var eins konar túlkun á persónuleika hans og aðstæðum. Verkið var skemmtilegt, líflegt og tignarlegt. Hljómsveitin lék af vandvirkni en líka krafti undir öruggri stjórn Rumons Gamba.



Næst á dagskránni var frumflutningur á klarínettukonsert eftir Svein Lúðvík Björnsson. Einar Jóhannesson var í einleikshlutverkinu. Fyrst gat að heyra íhugula, rólega melódíu úr klarínettunni, sem var römmuð inn með nokkrum háværum hljómsveitarhljómum. Síðan breyttist hljómsveitarröddin í lágværan ym sem smám saman magnaðist upp. Útkoman var seiðandi. Eitthvað dásamlega fagurt var við samhljóm klarínettunnar og hinna hljóðfæranna. Allsráðandi var unaðslegur annarleiki, sem erfitt er að lýsa með orðum.



Á eftir tók við kraftmeiri kafli sem var fallega áleitinn. Skemmtilega þráhyggjukenndur slagverkspartur var framarlega. En jafnframt hvass klarínettueinleikur, sem var undirstrikaður með ámóta hörðum leik annarra klarínettuleikara í hljómsveitinni. Þessar öfgar sköpuðu áhrifamikla andstæðu við það sem á undan var gengið.



Lokahlutinn var einstaklega heillandi. Rósemin var í fyrirrúmi á ný. Hæg laglína einleiksklarínettunnar fékk að njóta sín við síendurteknar strengjahendingar og veikradda, fjölbreytta slagverkstóna. Það var dáleiðandi í einfaldleika sínum.

Einar Jóhannesson var frábær og hljómsveitin lék líka af nostursemi. Konsertinn eftir Svein Lúðvík er einn allra besti íslenski einleikskonsert sem ég hef hlýtt á. Hann verður vonandi fluttur sem fyrst aftur.



Og þá eru það slæmu fréttirnar. Á dagskránni eftir hlé var sinfónía op. 40 eftir Erich Wolfgang Korngold. Hann var vissulega frábært kvikmyndatónskáld á fyrri hluta 20. aldarinnar. En svo fór hann að dala og sinfónían nú var samin á hnignunarskeiðinu. Hún var eitthvert mesta glundur sem ég hef heyrt, full af klisjum og úreltum hugmyndum. Í þokkabót tók hún næstum klukkutíma í flutningi. Það er sennilega lengsti klukkutími sem ég hef lifað á Sinfóníutónleikum. Svo var flutningurinn ekki gallalaus, nokkrar feilnótur voru áberandi. Þær gerðu klukkutímann enn þá lengri. Ég hefði frekar viljað heyra konsertinn eftir Svein Lúðvík aftur eftir hlé. 



Niðurstaða: Fúl sinfónía eftir Korngold, en einleikskonsert eftir Svein Lúðvík Björnsson var sérlega fallegur, og var einnig prýðilega spilaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×