Gagnrýni

Póstmódern haustfagnaður

Sesselja G. Magnúsdóttir skrifar
Dansfestival. „Í verkum Ula Sickle, Solid Gold og Jolie,kvað við allt annan tón. Þar gat að líta alls ólíkan menningararf og hreyfiheim en þann sem venjulega sést hér á sviði.“
Dansfestival. „Í verkum Ula Sickle, Solid Gold og Jolie,kvað við allt annan tón. Þar gat að líta alls ólíkan menningararf og hreyfiheim en þann sem venjulega sést hér á sviði.“ Mynd: Vincent Pinckaers
Dans:

Reykjavíkdansfestival

Face eftir Christian Falsnaes

DEAD Beauty and the Beast eftir Höllu Ólafsdóttur og Amanda Apetrea

Fronting eftir Ásrúnu Magnúsdóttur og Alexander Roberts

Solid Gold og Jolie eftir Ula Sickle



Það er kærkomið tækifæri fyrir dansáhugafólk að hittast nú aftur síðla hausts, sjá dans og spjalla um þetta sameiginlega áhugamál. Framtak listrænna stjórnenda Reykjavíkdansfestivals að hafa fjórar minni danshátíðir á ári, en ekki aðeins eina, er því lofsvert. Góður en þröngur hópur fólks kemur saman á þessum stundum og er greinilegt að RDF er ekki síður félagslegur viðburður þar sem samræðan og tengslamyndun blómstra heldur en listviðburður sem slíkur. Á hátíðinni að þessu sinni virðist andi Judson-hópsins, sem starfaði í New York í byrjun 7. áratugar síðustu aldar og hefur verið skilgreindur sem póstmódern-dans innan dansfræðanna, svífa yfir vötnum. Hugmyndir eins og dansinn dansins vegna, allar hreyfingar geta verið danshreyfingar, ekkert leikhúsprjál, „ekki-dansara“ upp á svið, sköpunarferlið ofar afurðinni og afnám fjórða veggjarins allt þetta má greina í þeim verkum sem þegar hafa verið sýnd á hátíðinni þegar þessi pistill er skrifaður.



Á opnunarverki hátíðarinnar Face eftir Christian Falsnaes var fjórði veggurinn virtur að vettugi. Áhorfendur voru virkjaðir í gegnum spunatækni til að taka þátt í félagslegri danssköpun þar sem skoðaðir voru þættir eins og kynhlutverk og möguleikar á því að stjórna fjöldasamkomu. Uppátækið virtist hafa tekist með ágætum og áhorfendur, sem voru reyndar í hlutverki þátttakenda en ekki áhorfenda, skemmtu sér vel.

Í verki Höllu Ólafsdóttur og Amöndu Apetrea, DEAD Beauty and the Beast kveður við sama tón en sú sýning leystist upp í sameiginlegan dansleik. Verkið byggir að nokkru á eldri verkum Beauty and the Beast að viðbættum ljóðalestri, danceoke og dj. Beauty and the Beast er áhugavert fyrirbæri sem byggir á sterkri karaktersköpun þeirra stallna og ögrandi sviðsframkomu sem ber ekki síst keim af þungarokki og klámi. Á sýningunni á miðvikudaginn var það ekki síst tilvísun í eldri verk sem vakti athygli en ljóðin og flutningur þeirra voru líka allrar athygli verð þótt textinn færi að mestu fyrir ofan garð og neðan. Hér var samt greinilega um verk í vinnslu að ræða sem gaf ágætis innsýn í hvers þær stöllur eru megnugar en var enn sem komið er hvorki fugl né fiskur.



Dansverkið Fronting eftir Ásrúnu Magnúsdóttur og Alexander Roberts er skapað úr hreyfingum sem vanalega eru ótengdar dansi og flutt af einstaklingum sem ekki eru dansarar. Þannig voru hreyfingarnar sóttar í smiðju þekktra hljómsveitarsöngvara og þrír slíkir, Gunnar Ragnarsson í Grísalappalísu, Unnsteinn Manuel Stefánsson í Retró Stefson og Kata Mogensen í Mammút, fengnir til að dansa verkið. Niðurstaðan var þrír ólíkir frasar einn fyrir hvern söngvara sýndir hver á eftir öðrum. Hugmyndin er frumleg og skemmtileg eins og reyndar allt sem þau koma nálægt Ásrún og Alex, en útkoman var ekki nógu sterk. Það vantaði meiri úrvinnslu viðfangsefnisins svo frasarnir yrðu annað og meira en þrjú skemmtileg atriði, samsett úr röð hreyfinga, sýnd hvert á eftir öðru. Söngvararnir sýndu þó óborganlega takta í að „dansa“ lögin sín án söngs.



Í verkum Ula Sickle, Solid Gold og Jolie, sem sýnd voru á fimmtudagskvöldið kvað við allt annan tón. Þar gat að líta alls ólíkan menningararf og hreyfiheim en þann sem venjulega sést hér á sviði, heim sem flokkast myndi undir djass í dansi í víðustu merkingu þess orðs. Sviðsmyndin í verkinu var engin, aðeins lýsing og dansararnir voru klæddir hversdagslegum fötum. Hreyfingar og líkamstjáning dansaranna fengu því að njóta sín í sinni tærustu mynd. Dansinn skapaði að auki hljóðmyndina með hjálp tækni og tæknifærra manna. Bæði verkin voru markviss og sterk og frammistaða dansaranna í takt við það.

Niðurstaða: Nóvemberhátíð RDF byrjar vel, ekki síst sem félagslegur listviðburður. Verkin sem sýnd hafa verið eru áhugaverð en mættu vera vandaðri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×