Gagnrýni

Mjúkir taktar með klassískum áhrifum

Björn Teitsson skrifar
Kiasmos
Kiasmos
Tónlist 

Kiasmos

Kiasmos

Erased Tapes



Kiasmos er samstarfsverkefni þeirra Ólafs Arnalds, sem hefur getið sér ágætis orð fyrir tilraunakennda tónlist undir klassískum áhrifum, og hins færeyska Janusar Rasmussen, sem er þekktastur sem aðaldriffjöðrin í rafpoppsveitinni Bloodgroup.

Hafa þeir félagar starfað saman um nokkurt skeið og sent frá sér stuttskífur með óreglulegu millibili. Í lok októbermánaðar leit fyrsta breiðskífa piltanna dagsins ljós og er gripurinn samnefndur samstarfsverkefninu/hljómsveitinni.

Um er að ræða vandaða plötu sem flokkast til raftónlistar og sem slík er hún jafnvel nokkuð tilraunakennd. Klassísk áhrif frá Ólafi koma berlega í ljós og þá notast þeir félagar við talsvert af „live“ hljóðfærum sem gefa hljómnum aðra vídd.

Taktarnir eru útpældir, hljómurinn er mjúkur, ef svo má að orði komast, og erfitt að henda reiður á hvort tónlistin sé dansvæn eða ekki. Kæmi til þess að platan yrði spiluð á klúbbi, væri það líklega rétt fyrir lokun þegar hugur gesta er orðinn tómur og fljótandi. Ef til vill myndi enska orðið „atmospheric“ hæfa hér – en því miður virðist íslenskan ekki geta fangað þá stemningu sem orðinu fylgir. En raftónlistaráhugamenn vita. Þeir vita.

Þeir Ólafur og Janus ná að mynda ágætan heildarsvip, platan er jöfn og sterk frá upphafi til enda. Bestu lögin eru níu mínútna súpurnar Thrown og Burnt en hápunktinum er náð í Bent – sem er líklegasta lagið til að slá í gegn á klúbbagólfum Evrópu, hafi það ekki gert það nú þegar.

Platan er sem fyrr segir einkar vönduð. Helsti galli hennar, ef galla skyldi kalla, væri að hún er of vönduð. Orðsporið sem fer af þeim Ólafi og Janusi er að þeir séu miklir fullkomnunarsinnar, sem er auðvitað jákvætt. En hljómurinn mætti vera aðeins meira „dirty.“ En það mætti auðvitað segja um allt. Já, allt!



Niðurstaða:Flott skífa frá metnaðarfullum tónlistarmönnum sem hafa lagt mikla vinnu í verkið. Mögulega of mikla, hljómurinn mætti vera smá „dirty.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×