Gagnrýni

Svakalega fyndið ímyndunarafl

Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar
Leitin að Blóðey
Leitin að Blóðey
Bækur 

Leitin að Blóðey

Guðni Líndal Benediktsson

Vaka-Helgafell



Leitin að Blóðey er fyrsta bók Guðna Líndal Benediktssonar, en hún hreppti íslensku barnabókaverðlaunin í ár. Undirrituð var ekki viss um í hvers konar ferðalag hún var að leggja þegar hún hóf lestur þessarar bókar en fljótlega kom í ljós að það var mikil skemmtiför.

Bókin er saga í sögu. Hún hefst á því að hinn sjö ára gamli Kristján er sendur í háttinn og hann er alls kostar óánægður með það. Fljótlega stingur afi höfðinu inn um herbergisdyrnar og býðst til að segja honum sögu. Afi lætur Kristján lofa að segja ekki nokkrum manni frá því sem hann ætlar að trúa honum fyrir, en sagan fjallar um ævintýrin sem afi sjálfur lenti í þegar hann þurfti að bjarga ömmu frá afskaplega ljótum og leiðinlegum seiðskratta. Afi er mikil hetja í sögunni og þarf að berjast við alls kyns óvættir en það gengur ágætlega, enda hreystimenni mikið.

„Sagan er vel skrifuð og fyrst og fremst brjálæðislega fyndin.“vísir/vilhelm
Sagan er vel skrifuð og fyrst og fremst brjálæðislega fyndin. Ég hló margoft upphátt – dátt og lengi. Persónusköpun er til fyrirmyndar, bæði sú sem er í höndum afa – en hann segir frá alls konar furðuverum sem hann mætir á ferðum sínum – og svo er afi sjálfur frábær karakter.

Sagan er lipurlega framsett og augljóst er að höfundur hefur afar gaman að því að skrifa hana, það skín í gegn og sagnagleðin smitar lesandann. Hún er þétt og heildstæð, þótt sögumaður komi sífellt inn alls kyns útúrdúrum sem eru hver öðrum fyndnari.

Ivan Cappelli gerði myndirnar sem prýða kápuna og upphaf hvers kafla. Ljóst er að hann hafði jafngaman af teiknistarfinu og höfundur af sagnagerðinni og leyfir ímyndunaraflinu að leiða sig áfram.

Ég vona að við fáum að heyra fleiri sögur af honum afa, en ef ekki þá er þetta allavega bók sem mun klárlega verða lesin margoft á hverju heimili. Vel heppnuð frumraun hjá Guðna.

Niðurstaða: Bráðfyndin saga með frábærum persónum sem ætti að höfða bæði til barna og foreldra þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×