Sport

Conor McGregor kláraði Siver í annarri lotu - baðst síðan afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Conor McGregor fagnar hér sigri í nótt.
Conor McGregor fagnar hér sigri í nótt. Vísir/Getty
Írinn og Íslandsvinurinn Conor McGregor hélt sigurgöngu sinni áfram á UFC-bardagakvöldinu í TD Garden í Boston í nótt en Írinn litríki átti ekki í miklum vandræðum með Dennis Siver.

Conor McGregor tryggði sér sigur á tæknilegu rothöggi þegar 1:54 mínútur voru eftir af annarri lotu en dómarinn stoppaði þá bardagann.

McGregor náði þá góðu vinstri höggi á Dennis Siver og fylgdi því eftir með nokkrum góðum olnbogahöggum án þess að Dennis Siver kæmi vörnum við.

„Ég sagði tvær mínútur en ég meinti tvær lotur," sagði Conor McGregor eftir bardagann og baðst afsökunar á að hafa ekki farið rétt með í kyndingum sínum fyrir kvöldið en hann spáði þá að það tæki hann aðeins tvær mínútur að klára bardagann.

„Þetta var þægilegt allan tímann. Ég held að enginn af þessum fjaðurvigtarstrákum geti ógnað mér eitthvað. Þeir eru allir að tala en enginn þeirra talar þó um hæfileika eða tækni því þeir vita að þar er ég er í sérflokki," sagði Conor McGregor yfirlýsingaglaður að venju.

Conor McGregor hefur nú unnið 17 af 19 bardögum sínum þar af þrjá þá síðustu á tæknilegu rothöggi. Conor McGregor hefur æft með Gunnari Nelson undanfarin ár og eru þeir góðir félagar. Gunnar lýsti bardaganum á Stöð 2 Sport í nótt.

Conor McGregor er mikill sýningarkarl og um leið og hann hafði unnið bardagann var hann farinn að stríða næsta mótherja. Sá heitir Jose Aldo og var staddur í salnum og McGregor fór beint til hans þegar sigurinn var í höfn. 

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×