Íslenska landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir mun spila með þýska liðinu Bayern München út þetta tímabil en þetta kemur fram á heimasíðu þýska félagsins.
Dagný Brynjarsdóttir lauk námi við Florida State University fyrir jól og var að leita sér að liði en hún spilaði með Selfossi í Pepsi-deildinni á síðasta tímabili.
Dagný varð bandarískur háskólameistari með Florida State og varð í öðru sætinu í kjörinu á besta leikmanni háskóladeildarinnar á síðasta tímabili.
„Dagný er mjög hæfileikaríkur og skapandi sóknarmaður sem getur bæði spilað á miðjunni og í framlínunni. Ég hlakka til að vinna með þessum unga og afar metnaðarfulla leikmanni," sagði Thomas Wörle, þjálfari kvennaliðs Bayern München á heimasíðu félagsins.
„Ég er mjög spennt að byrja atvinnumannaferillinn minn hér með Bayern. Mitt markmið er að þroskast sem leikmaður og hjálpa liðinu að ná sínum markmiðum. Ég hlakka til næstu sex mánaða," sagði Dagný í viðtali á heimasíðu Bayern München.
Bayern München er nú í 2. sæti þýsku deildarinnar tveimur stigum á eftir Evrópumeisturum VfL Wolfsburg.
Dagný samdi við Bayern München
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið








Helena Ósk tryggði Valskonum sæti í undanúrslitunum
Íslenski boltinn

Tinna Guðrún: Þetta er ógeðslega gaman
Körfubolti
