ISIS hefur tekið yfir svæði við sunnanverðan jaðar borgarinnar, en vopnaðar sveitir Kúrda, eða Peshmerga, berjast nú gegn vígamönnum samtakanna. Hershöfðinginn Shirko Fateh féll í árás ISIS en hann var hæst setti yfirmaður Peshmerga á svæðinu.
Samkvæmt CNN gerðu samtökin einnig árás á hótel í miðbæ Kirkuk, sem lögregla og Peshmerga notaði sem höfuðstöðvar. ISIS kom fyrir leyniskyttum á þaki hótelsins, en Kúrdar tóku þó byggingu aftur og felldu þrjá vígamenn. Þar að auki sprengdu tveir sig í loft upp til að reyna að koma í veg fyrir að Kúrdar næðu hótelinu.
Síðustu daga hefur verið rætt um að ISIS myndi ráðast á borgina til að reyna að draga sveitir Kúrda frá borginni Mosul í Írak. ISIS heldur henni en Peshmerga hafa lokað fyrir alla umferð til borgarinnar og sitja um hana, með hjálp loftárása.
Kúrdar hafa haldið aftur af ISIS
Eftir að íraski herinn hörfaði undan sókn ISIS í sumar, stóðu Peshmerga sveitir Kúrda vörð um sjálfstjórnarsvæði þeirra í Norður-Írak og stöðuðu þeir sókn vígamannana. Síðan þá hafa Peshmerga barist við ISIS víða um norðanvert landið sem og í Sýrlandi á meðan Írakar reyna að byggja herinn upp aftur.
Kúrdarnir vörðu Kobani í Sýrlandi gegn ISIS og tókst að hrekja þá á brott á síðustu dögum. Þegar ISIS hafði króað gífurlegan fjöldi Jadsída á Sinjar-fjalli og vígamenn samtakanna frömdu fjöldamorð þar, börðust Peshmerga sveitir þar til þeir komust að fjallinu og hjálpuðu fjölmörgum Jadsídum að flýja af fjallinu.