Vígamenn Íslamska ríkisins hafa rænt minnst 90 einstaklingum úr þorpum í norðausturhluta Sýrlands, sem tilheyra kristnum minnihluta landsins. Mannréttindasamtök sem fylgjast með ofbeldi í landinu tilkynntu þetta í gær, en fjöldi þeirra sem voru handsamaðir hefur hækkað síðan þá.
Kristnir sýrlendingar tilheyra fornum hluta kristinnar trúar, en ISIS hefur beitt minnihlutahópa í Írak og Sýrlandi gífurlega miklu ofbeldi. Þúsundir jadsída létu lífið í fyrra þegar ISIS gerði atlögu gegn þeim og króaði tugi þúsunda þeirra af á Sinjar fjalli, svo dæmi sé tekið.
Reuters fréttaveitan segir að kristna fólkinu hafi verið rænt nærri bænum Tel Hmar, sem sé nærri borginni Hasaka. Hermenn kúrda stjórna borginni.
Erlent