Píratar vilja að Alþingi feli forsætisnefnd þingsins að láta undirbúa lagafrumvarp um sérstaka stofnun á vegum þingsins sem hafi sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Verkefni stofnunarinnar eiga meðal annars að vera að hefja athugun að eigin frumkvæði og að taka við kærum einstaklinga sem telja lögreglu hafa brotið á réttindum sínum.
Nefndin á einnig að rannsaka meint brot lögreglumanna í starfi, að rannsaka tilkynningar innan úr lögregluliðum um einelti og kynferðislega áreitni og rannsaka upplýsingar frá nafnlausum afhjúpendum innan lögreglu eða stjórnsýslu.
Allir þrír þingmenn Pírata flytja tillöguna en samkvæmt henni á forsætisnefnd að leggja frumvarpið fram til kynningar ásamt kostnaðargreiningu ekki síðar en á vorþingi 2016.
Vilja sérstaka eftirlitsstofnun með lögreglunni
Aðalsteinn Kjartansson skrifar
