Grísk stjórnvöld munu kynna umbótatillögur sínar fyrir fulltrúum evruríkjanna í síðasta lagi á mánudag. Vonast er til að tillögurnar muni leiða til að Grikkir fái frekari lán og geti þannig forðast greiðslufall.
„Þetta verður gert í síðasta lagi á mánudag,“ segir Gabriel Sakellaridis, talsmaður Grikklandsstjórnar.
Grísk stjórnvöld og lánadrottnar þeirra samþykktu í síðustu viku að Grikkir myndu kynna eigin umbótatillögur, sem skulu fela í sér sambærilegan sparnað og sá sem fyrri stjórn hafði samþykkt.
Grikkir þurfa nauðsynlega á 240 milljarða evra neyðarláni að halda frá evruríkjunum. Greiðsla á því láni hefur verið frestað þar til Grikkir leggja fram raunhæfar áætlun að mati lánveitendanna á hvernig þeir hyggist koma skikki á ríkisfjármálin.
Gríska ríkið er þó að renna út á tíma og hafa Grikkir verið útilokaðir frá alþjóðlegum lánamörkuðum. Stjórnvöld þar í landi eiga í vandræðum með að fjármagna 1,5 milljarða evra greiðslu á lífeyri og launum opinbera starfsmanna sem greiðast á í lok vikunnar. Fáist ekki aukið lánsfé mun laust fé gríska ríkisins klárast í byrjun apríl og þá blasir gjaldþrot við.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, funduðu í Berlín í gær.
Málið þykir sérlega viðkvæmt fyrir Tsipras sem komst til valda í grísku þingkosningum eftir að hafa heitið kjósendum að binda enda á frekari aðhaldsaðgerðir.
Grikkir kynna tillögur sínar á mánudag

Tengdar fréttir

Tsipras og Merkel funda í dag: Gjaldþrot Grikkja yfirvofandi
Gríska ríkið gæti orðið gjaldþrota í byrjun apríl náist ekki samningar um nýtt neyðarlán.

Grikkir skila inn nýrri umbótaáætlun
Leiðtogar ESB segja grísk stjórnvöld hafa samþykkt að skila inn nýrri áætlun til að fá frekari lán.