Framleiðendur Ísland Got Talent vilja, í ljósi neikvæðrar umræðu að undanförnu, árétta að keppnin á heimsvísu standi öllum opin, fagmönnum sem og áhugamönnum. Hún sé hugsuð sem vettvangur fyrir fólk á öllum aldri til að sýna hæfileika sína og getu.
Í tilkynningu frá framleiðendunum segir að litlu hafi munað á atkvæðum á milli atriða í keppninni í gær, hún hafi verið jöfn og spennandi. Harma þeir því umræðuna, því keppendur leggi á sig mikla vinnu og erfiði til að gera atriði sín sem best.
Sjá einnig: Hanna Rún verður fyrir barðinu á ævareiðum nettröllum
Tilkynninguna í heild má sjá hér fyrir neðan:
Vegna þeirrar neikvæðu umræðu sem átt hefur sér stað á netheimum í garð eins af atriðum gærkvöldsins vilja framleiðendur Ísland Got Talent árétta að keppnin á heimsvísu stendur öllum opin, fagmönnum jafnt sem áhugamönnum.
Hún er hugsuð sem vettvangur fyrir fólk á öllum aldri til að sýna hæfileika sína og getu hvort sem það hefur starfað við að skemmta fólki eður ei. Keppendur leggja á sig mikla vinnu og erfiði til að gera atriði sín sem best og harma framleiðendur þessa neikvæðu umræðu. Keppnin í gær var gríðarlega jöfn og spennandi og ekki munaði mörgum atkvæðum á milli atriða.
Framleiðendur vilja þakka öllum keppendum kærlega fyrir alla þá vinnu og dugnað sem þeir hafa lagt í atriðin og þeim sem eiga eftir að keppa í úrslitunum óskum við velfarnaðar.
Framleiðendur Ísland got Talent harma umræðuna: „Keppnin á heimsvísu stendur öllum opin“

Tengdar fréttir

Hanna Rún verður fyrir barðinu á ævareiðum nettröllum
Hanna Rún Bazev Óladóttir og Nikita Bazev hættu við þátttöku á Evrópumeistaramóti til að taka þátt í Ísland Got Talent í gær en fengu lítið annað en skömm í hattinn frá áhorfendum.