Viðskipti innlent

Máli VÍS vegna láns í Úkraínu vísað frá dómi

ingvar haraldsson skrifar
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS. vísir/vilhelm
Máli Vátryggingafélags Íslands hf gegn fjárfestingafélaginu Visoky Zamok Investments hefur verið vísað frá dómi. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þessari niðurstöðu fyrr í dag.

Málið snýst um samning sem fyrirtækin gerðu í september 2008 og snérist um að VÍS lánaði Visoky Zamok tvær milljónir dollara sem leggja átti inn í úkraínska bankann Bank Lviv. Af láninu áttu að greiðast 11 prósenta vextir sem yrðu greiddir tvisvar á ári, í mars og september ár hvert. Endurgreiða ætti lánið að fullu þann 1. september 2015. Visoky Zamok fengi greiðslurnar frá úkraínska bankanum og legði þær síðan inn á VÍS.

VÍS var þá stór hluthafi í MP banka. MP banki átti félagið Vostok Holdings Netherlands sem átti bæði Bank Lviv í gegnum dótturfélag og einnig hið stefnda félag, Visoky Samok. Því átti VÍS óbeint hlut í Visoky Samok.

Úkraínski bankinn má ekki borga af láninu

Í kjölfar fjármálakreppunnar sem reið yfir 2009 hefur Bank Lviv verið í gjörgæslu Seðlabanka Úkraínu. Bankinn greiddi engu síður vexti af láninu út árið 2011. Seðlabanki Úkraínu setti Bank Lviv við upphaf ársins 2012 þau skilyrði að það mætti ekki greiða hærri vexti en 6% af innlánum. Því hafi þeir ekki mátt greiða af láninu samkvæmt upphaflegum lánaskilmálum.

Þá hafa einnig verið gjaldeyrishöft við lýði í Úkraínu um nokkurn tíma og ströng skilyrði eru á millifærslur milli landa. Þá bannaði Seðlabanki Úkraínu Bank Lviv sumarið 2013 að endurgreiða innlán og vexti til tengdra aðila. Visoky Zamok telst vissulega til tengdra aðila enda félögin í eigu sama hollenska félags.

Visoky Zamok segist því vegna gjaldeyrishafta og kvaða sem Seðlabanki Úkraínu hefur sett ekki getað borgað lánið til baka þar sem ekki sé hægt að fá féð greitt út úr Bank Lviv.

Málatilbúnaður VÍS gallaður

VÍS fór fram á að fá upphaflegu lánsfjárhæðina, tvær milljónir bandaríkjadala, um 270 milljónir króna, greiddar auk ógreiddra vaxta af láninu, sem nema 220.000 þúsund dollurum á ári, en það jafngildir um tæplega 30 milljónum króna, að viðbættum dráttarvöxtum.

Héraðsdómur féllst á málflutning stefnda í málinu um að ekki væri hægt að fá lánið greitt út vegna gjaldeyrishafta og takmarkana á greiðslur innlána til tengdra aðila. Þá hafi krafa VÍS verið óskýr, málatilbúnaðurinn gallaður auk þess að krafan um endurgreiðslu fjárins hafi ekki verið sundurliðuð. Málinu var því vísað frá dómi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×