Líðan drengsins sem haldið hefur verið sofandi á Landspítalanum eftir slys við Reykdalsstíflu í Hafnarfirði er óbreytt, samkvæmt upplýsingum frá spítalanum. Verður honum haldið sofandi áfram.
- Ekki eru til opinber gögn um að slys hafi áður átt sér stað við Reykdalsstíflu
- Unnið er að því að ná sem mestu vatni úr lóninu
- Lögreglan vinnur að rannsókn málsins og ræðir við vitni í dag
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að málið sé enn til rannsóknar. Verið sé að ræða við vitni auk þess sem lögregla hefur verið á vettvangi slyssins.
Vísir sagði frá því í morgun að byrjað hafi verið að tæma lónið í gær en Margeir segir að byrjað hafi verið að hleypa vatni úr því til að stöðva rennsli fossins sem drengirnir festu sig í.
Systir drengjanna tveggja var sú sem kallaði á aðstoð samkvæmt upplýsingum fréttastofu en vegfarandi, maður á þrítugsaldri, fór í vatnið og reyndi að ná drengjunum upp úr. Aðstæður voru afar erfiðar að sögn lögreglu.
Ekki liggur fyrir í opinberum gögnum Hafnarfjarðarbæjar eða lögreglunnar að slys hafi áður orðið á staðnum en samkvæmt ábendingum frá íbúum bæjarins hefur það gerst. Ekki liggur þó fyrir hvenær eða hvers eðlis.