Enski boltinn

Liverpool minnist fórnarlamba Hillsborough-harmleiksins í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty

Liverpool mun heiðra minningu fórnarlamba Hillsborough-harmleiksins í dag en þá verða 26 ár liðin frá þessum hryllilega atburði þar sem 96 stuðningsmenn Liverpool létust.



Það verður mínútu þögn í Liverpool klukkan 15.06 að breskum tíma eða 14.06 að íslenskum tíma eða sama tíma og dómarinn stöðvaði leikinn sem var á milli Liverpool og Nottingham Forrest í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar.



Liverpool hefur alltaf barist fyrir heiðri þerra sem fórust í slysinu en í fyrstu var því haldið fram að stuðningsmenn Liverpool ættu sök á því hvernig fór.



Annað hefur komið á daginn en lögreglan gerði afdrifarík mistök með því að hleypa 5000 stuðningsmönnum inn í aðra endastúkuna á vellinum en þá krömdust þeir sem voru fremstir upp við hliðin.



Í kjölfar harmleiksins 1989 voru öll hlið fjarlægð í kringum vellina á Englandi sem og að öll öryggismál og skipulag leikvanganna voru tekin til endurskoðunar.



BBC hefur tekið saman upplýsingar um þá 96 sem fórust í Hillsborough-harmleiknum og það má finna þær með því að smella hér.



Hér fyrir neðan má sjá heimildarmynd frá BBC um harmleikinn  en þar kemur vel fram hvernig lögreglan í Sheffield reyndi að fela mikilvægar staðreyndir í málinu og koma sökinni um leið á stuðningsmenn Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×