Viðskipti innlent

Aurum-málið á leið aftur í héraðsdóm

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vinstri: Ólafur Þór Hauksson og Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem er honum á vinstri hönd. Fyrir aftan þá situr Lárus Welding.
Frá vinstri: Ólafur Þór Hauksson og Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem er honum á vinstri hönd. Fyrir aftan þá situr Lárus Welding. Vísir
Frétt uppfærð klukkan 16:05



Hæstiréttur féllst í dag á ómerkingarkröfu ákæruvaldsins í Aurum-málinu svokallaða. Áfrýjunarkostnaður verður greiddur af ríkissjóði.

Dómsuppkvaðning var klukkan 16 en Vísir greindi frá því fyrr í dag að von væri á ómerkingu. Var vísað til ummæla dómara í Hæstarétti við upphaf málflutnings.

Í málinu voru þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson sýknaðir af ákærum um umboðssvik og hlutdeild í þeim. Þeir voru ákærðir fyrir umboðssvik vegna sex milljarða króna láns sem Glitnir veitti félaginu FS38 ehf. sem var í eigu Pálma Haraldssonar, vegna kaupa á félaginu Aurum Holdings Ltd.

Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og krafðist þess að héraðsdómur yrði ómerktur sökum ættartengsla Sverris Ólafssonar, sérfróðs meðdómanda í Aurum-málinu, við Ólaf Ólafsson, sem var á dögunum sakfelldur í Hæstarétti fyrir hlutdeilt í umboðssvikum í Al Thani málinu.

Við upphaf málflutnings í Hæstarétti í síðustu viku höfðu dómarar orð á því að dómur yrði ekki upp kveðinn nema í því tilfelli að um ómerkingardóm væri að ræða.

Uppfært klukkan 16:40

Dóm Hæstaréttar má lesa hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×