Innlent

Sleikti skeið og stakk henni í sósuna í beinni á RÚV

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Auðvitað að veit ég að þetta er stranglega bannað,“ segir yfirmatreiðslumaðurinn á Strikinu á Akureyri.
„Auðvitað að veit ég að þetta er stranglega bannað,“ segir yfirmatreiðslumaðurinn á Strikinu á Akureyri.
Garðar Kári Garðarsson, yfirmatreiðslumaður á Strikinu á Akureyri, var staðinn að því í beinni útsendingu að smakka sósu með sömu skeið og hann notaði síðan til að skenkja á diska viðskiptavina. Allt gerðist þetta í beinni útsendingu á RÚV.

„Það er búið að taka fund um þetta innanhúss, við gerðum það í morgun. Auðvitað veit ég að þetta er stranglega bannað,“ segir Garðar um atvikið. Hann segir að öll heilbrigðismál séu í góð lagi á staðnum, einföld mistök hafi átt sér stað í gærkvöldi.

Atvikið í beinni á RÚV
Viðtalið var tekið vegna áhrifa verkfalls ófaglærðra starfsmanna á veitingastöðum á starfsemina. Garðar segir í samtali við Vísi að tæknimaður RÚV hafi bent honum á mistökin strax að lokinni útsendingu.

„Þetta er leiðinlegt atvik,“ segir hann. „Það er er mikið álag á mönnum sem eru að vinna. Við vorum tveir í gær og afgreiddum 120 manns. Við vorum búnir tvö í nótt, að vaska upp og skúra, og svo mættir klukkan níu í morgun,“ segir Garðar.

Í samtali við Vísi segir Alfreð Schiöth, hjá Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, málið hafi ekki ratað á borð til þeirra. Hann segir það ekki samrýmast reglum að setja upp í sig skeið sem síðan er notuð til að skenkja sósu á diska viðskiptavina.

Alfreð hafði þó ekki séð umrætt myndskeið.

Uppfært klukkan 11:35

Steinar Pálmi Ágústsson, veitingastjóri á Strikinu, vill koma á framfæri að diskarnir voru aldrei bornir á borð gesta. Tæknimaður RÚV hafi bent þeim á málið og þeir um leið hætt við að bera fram réttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×