Innlent

Formaður VR óttast lög á verkfallið

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Formaður VR óttast að lög verði sett á verkföll launafólks. Formaður Samtaka atvinnulífsins segir verkfallsvopnið mjög sterkt og að verkalýðshreyfingin geti knúið hvaða vitleysu í gegn í krafti verkfalla sem hún kýs að gera.

Þau Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, voru gestir Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar sagði Þorsteinn að það að viðhalda stöðugleikanum í efnahagskerfinu væri á allra ábyrgð.

„Ég myndi segja að yfirburðastaða verkalýðshreyfingarinnar gagnvart atvinnurekendum í dag er alger,“ sagði Þorsteinn. „Atvinnurekendur eiga sitt verkbannsvopn en það er neyðarbragð, vegna þess að fyrirtækið veit að það setur sjálft sig á hausinn með því að beita slíku vopni til lengdar.

Þannig að við vitum á endanum að verkalýðshreyfingin getur knúið hvaða vitleysu í gegn í krafti verkfalla sem hún kýs að gera. Vegna þess að á endanum stendur fyrirtækið frammi fyrir valkostunum að ganga að þessum kröfum eða að fara einfaldlega á hausinn.“

Þorsteinn hefur meðal annars gagnrýnt kröfur um miklar launahækkanir, líkt og kröfur Starfsgreinasambandsins um fimmtíu prósent launahækkanir. Ólafía sagðist í þættinum óttast það að lög yrðu sett á verkföllin.

„Ábyrgðarlaust tal“

„Við í VR vorum í gær á fundi stjórnar klukkan tíu, svo trúnaðarráðsfundur klukkan ellefu og svo Landssamband íslenskra verslunarmanna í hádeginu. Þar var samþykkt samhljóða það aðgerðaplan sem við komum til með að kynna á þriðjudagsmorgun. En ég ætla bara rétt að vona að við náum að nálgast viðfangsefnið með skynsamlegum hætti áður en þetta brestur á.

Starfsgreinasambandið er í verkfalli, BHM er líka í verkfalli og aðrir stórir hópar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar eru nú að kjósa um verkfallsboðun. Þannig að þetta eru gríðarlega miklir hagsmunir og stórir hópar sem eru að fara hérna fram.“

Hún svaraði ummælum Þorsteins um að verkalýðshreyfingin væri að knýja fram vitleysu á þann hátt að það hafi ekki verið af léttúð sem ráðist var í verkfallsaðgerðir.

„Þetta er náttúrulega bara ábyrgðarlaust tal af hans hálfu, að segja þetta með þessum hætti,“ sagði Ólafía. „Við vildum ekki vera í þessari stöðu sem við erum í í dag.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×