Innlent

Hjúkrunarfræðingar munu greiða atkvæði um verkfall

Bjarki Ármannsson skrifar
Atkvæðagreiðslan nær til rúmlega 2100 hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu.
Atkvæðagreiðslan nær til rúmlega 2100 hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu. Vísir/Vilhelm
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) hefur ákveðið að efna til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun hjá þeim hjúkrunarfræðingum sem starfa samkvæmt kjarasamningi félagsins við fjármála- og efnahagsráðherra. Atkvæðagreiðslan nær til rúmlega 2100 hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu, mun atkvæðagreiðslan fara fram dagana 4. til 10. maí og má vænta niðurstöðu að morgni mánudagsins 11. maí. Kosið er um að hefja ótímabundið verkfall þann 27. maí, náist samningar ekki fyrir þann tíma. Verði af verkfalli mun það hafa áhrif á allar heilbrigðisstofnanir sem eru í rekstri ríkisins auk annarra vinnustaða hjúkrunarfræðinga hjá hinu opinbera.

„Samninganefnd Fíh vísaði viðræðum félagsins og ríkisins til ríkissáttasemjara þann 1. apríl síðastliðinn. Frá þeim tíma hafa verið haldnir þrír árangurslausir fundir og ekki er að merkja mikinn samningsvilja hjá samninganefnd ríkisins,“ segir í tilkynningunni. „Því sér félagið sig nú knúið til að kanna hug félagsmanna til verkfalls.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×