Níu starfsmenn FIFA og fimm aðrir hafa verið ákærðir í Bandaríkjunum og búið er að handtaka sjö þeirra. Sepp Blatter, forseti FIFA, er ekki meðal þeirra. Samtökin ætla sér að halda forsetakosningar á föstudaginn þrátt fyrir handtökurnar. Blatter er talinn líklegur til að vinna þessar kosningar í fimmta sinn.
Þá hafa yfirvöld í Sviss hafið rannsókn á boðsferlunum sem leiddu til þess að Rússland og Katar fengu heimsmeistaramótin 2018 og 2022.
Á vef BBC kemur fram að mennirnir sem ákærðir hafa verið í Bandaríkjunum eru sakaðir um að hafa þegið meira en 150 milljónir dala (um 20 milljarðar króna) í mútugreiðslur á frá árinu 1991.
Meðal hinna handteknu er Jeffrey Webb, varaforseti FIFA og yfirmaður fótboltasamtaka Norður- og Mið-Ameríku. Til stendur að framselja mennina sjö frá Sviss til Bandaríkjanna, en sex þeirra hafa höfðað mál til að komast hjá því að vera framseldir.
Fyrrverandi varaforseti FIFA, Jack Warner, hefur ekki verið handtekinn en hann er ákærður fyrir að þiggja um 10 milljónir dala (tæplega einn og hálfur milljarður króna) í mútur frá yfirvöldum í Suður-Afríku. Hann hefur gefið frá sér tilkynningu þar sem hann segist saklaus.
Hér má sjá frá blaðamannafundi saksóknara í Bandaríkjunum í dag.
Á vef AP fréttaveitunnar kemur fram að skýrsla sem FIFA lét gera um útboðsferli heimsmeistaramótanna 2018 og 2022 hafi leitt til þess að lögreglan hafi gert húsleit í höfuðstöðvum FIFA í Sviss í dag. Skýrslan var aldrei birt í heilu lagi en rannsakendur í Sviss fengu hana í hendur í nóvember.