Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna ISIS hafa náð tökum á um þriðjungi fornu borgarinnar Palmyra í Sýrlandi. Talsmaður sýrlenskra mannréttindasamtaka staðfestir þetta í samtali við AFP.
Palmyra er að finna á heimsminjaskrá UNESCO og er óttast að ISIS-liðar muni vinna skemmdir á eða eyðileggja borgina. ISIS-liðar hafa unnið skipulega að því að eyðileggja fornminjar á þeim svæðum þar sem samtökin hafa sótt fram.
ISIS-liðar hafa sótt hart að Palyra síðustu vikur. Palmyra er að finna um 200 kílómetrum norðaustur af sýrlensku höfuðborginni Damaskus.
Palmyra er eldri en forna borgin Nimrud sem ISIS-liðar eyðilögðu fyrir nokkrum vikum og var stofnuð um tvö þúsund árum fyrir Krist.
