Erlent

Martin O'Malley sækist eftir útnefningu demókrata

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Martin O'Malley ásamt spúsu sinni, Katie í Baltimore í gær.
Martin O'Malley ásamt spúsu sinni, Katie í Baltimore í gær. Vísir/APA
Fyrrum ríkisstjóri Maryland-ríkis í Bandaríkjunum, Martin O‘Malley, hefur tilkynnt um þá ákvörðun sína að sækjast eftir útnefningu demókrataflokksins til forsetaembættisins. Hann er þriðji frambjóðandinn sem ákveðið hefur að gefa kost á sér en áður hafa Hillary Clinton, fyrrum innanríkisráðherra Bandaríkjanna, og öldungardeildarþingmaðurinn Bernie Sanders tilkynnt um framboð sín.

O´Malley er fimmtíu og tveggja ára gamall og var borgarstjóri Baltimore í tvö kjörtímabil áður en hann varð ríkisstjóri árið 2007.

Í framboðsræðu sinni í gær sagði hann sig vera talsmann nýrra tíma í bandarískjum stjórnmálum og reifaði ýmis hugðarefni sín; til að mynda rétt samkynhneigðra til giftinga, málefni innflytjenda og hækkun lágmarkslauna.

Þá gagnrýndi hann einnig bónusgreiðslur innan bandaríska fjármálakerfisins og bölvaði hinum ýmsu samfélagsmeinum.

„Við getum ekki endurbyggt ameríska drauminn með því að þjónkast við þá ríku og áhrifamiklu,“ sagði O‘Malley í ræðu sinni.

O‘Malley studdi Hillary Clinton þegar hún sóttist eftir útnefningu demókrataflokksins árið 2008 en hefur gagnrýnt hana harðlega að undanförnu fyrir störf hennar sem innanríkisráðherra Bandaríkjanna.

„Forsetaembættið er ekki einhver kóróna sem á að ganga á milli tveggja fjölskyldna,“ sagði O‘Malley í sjónvarpsviðtali á dögunum og vísaði þar til Bush og Clinton-fjölskyldnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×