Vígamenn Íslamska ríkisins nota samfélagsmiðla í miklum mæli til að laða fólk að málstað sínum og dreifa áróðri. Þessir samfélagsmiðlar geta þó verið notaðir gegn þeim. Leyniþjónusta flughers Bandaríkjanna fylgist grannt með fjölmörgum reikningum á samfélagsmiðlum sem vitað er að notaðir eru af ISIS og vígamönnum samtakanna.
„Þeir voru að skoða samfélagsmiðla og sjá einhvern fávita standa við stjórnstöð ISIS,“ sagði hershöfðinginn Hawk Charlisle á blaðamannafundi nú nýverið.
Tuttugu og tveimur klukkustundum seinna vörpuðu flugmenn Bandaríkjanna þremur stórum sprengjum sem jöfnuðu stjórnstöðina við jörðu.
Samkvæmt Air Force Times hafa vígamenn ISIS birt um 1.700 myndir og myndbönd á samfélagsmiðlum og ná þeir til allt að 200 þúsund lesenda. Þá kom fram í máli hershöfðingjans að Bandaríkin hafa gert um 4.200 loftárásir gegn ISIS, varpað um 14.000 sprengjum og fellt um 13.000 vígamenn.
Þar að auki hafa þeir eyðilagt rúmlega þúsund farartæki og um 50 sprengjuverksmiðjur. Carlisle sagði einnig að þeir hefðu nærri því gert útaf við olíusölu ISIS.
Hluta af ræðu hershöfðingjans má heyra í meðfylgjandi frétt CNN.
Erlent