Lífið

1000 miðar seldir á tónleika til styrktar Nepal

Stefán Árni Pálsson skrifar
Rosalegir tónleikar framundan.
Rosalegir tónleikar framundan. vísir
UNICEF og Rauða krossinn standa nú fyrir neyðarsöfnun til styrktar þolendum jarðskjálftans mikla í Nepal. Þegar fréttir bárust af hamförunum ákvað lyfjafyrirtækið Alvogen að leggja málefninu lið og stendur nú fyrir styrktartónleikunum næstkomandi laugardag. Nú þegar hafa 1000 miðar selst og aðeins 100 miðar óseldir. Andvirði miðasölu verður skipt jafnt á milli samtakanna tveggja.

Nokkrir af vinsælustu tónlistarmönnum á Íslandi í dag hafa ákveðið að leggja verkefninu lið og munu spila á tónleikunum sem haldnir verða í Silfurbergi í Hörpu þann 6. júní næstkomandi. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fram koma Bubbi og Dimma, Retro Stefson, Amabadama og Ylja ásamt Sigríði Thorlacius.

Lyfjafyrirtækið Alvogen stendur straum af öllum tilfallandi kostnaði vegna tónleikanna þannig að andvirði miðasölu rennur óskert til UNICEF og Rauða krossins.

„Alvogen hefur verið einn af stærstu styrktaraðilum UNICEF á Íslandi og Rauða krossins og styrkt fjölmörg verkefni á þeirra vegum síðastliðin ár. Þegar hamfarirnar í Nepal dundu yfir brugðumst við strax við og lögðum fjórar milljónir í neyðaraðstoðina og tónleikarnir á laugardaginn munu skila fimm til sex milljónum til viðbótar,“ segir Róbert Wessman, forstjóri Alvogen. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×