Erlent

Tala látinna komin í 37 í Túnis

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst 37 eru látnir eftir skotárás á strönd í Sousse í Túnis í morgun. Tveir árásarmenn skutu á ferðamenn þar sem þau lágu í sólbaði. Annar árásarmaðurinn var felldur af lögreglu en óstaðfestar fregnir segja að hinn hafi verið handtekinn.

Flestir hinna látnu eru ferðamenn, meðal annars frá Bretlandi, Þýskalandi og Belgíu. 36 eru sagðir særðir.

Þrjár árásir hafa verið gerðar í dag í Túnis, Frakklandi og í Kúveit. Minnst 25 létust í sjálfsmorðsárás við mosku í Kúvæt. Þá var bíl ekið inn í gasverksmiðju í Frakklandi og höfði stillt upp við hlið verksmiðjunnar.

Íslamska ríkið hefur biðlað til stuðningsmanna sinna um heim allan að fjölga árásum á meðan Ramadan stendur yfir. Hins vegar liggur ekki fyrir hvort að þeir hafi staðið við árásina í Túnis.Þar að auki hefur AP fréttaveitan eftir talsmanni Pentagon að ekki sé ljóst hvort að árásirnar þrjár hafi verið samhæfðar.

Meðfylgjandi myndband gæti vakið óhug.

Talsmaður lögreglunnar sagði í dag að árásarmaðurinn sem skotinn var af lögreglu sé frá Túnis og hafi verið námsmaður. Hann hefur ekki áður komið við sögu lögreglu. Hann er sagður hafa gengið á ströndina með sólhlíf. Hann stakk henni í sandinn og tók Kalashnikov riffil út úr hlífinni og hóf skothríð sína.

Innanríkisráðuneyti Túnis sagði í dag að annar árásarmaður hafi flúið af vettvangi. Þá hafa miðlar í Túnis sagt að sá maður hafi verið handtekinn. Samkvæmt Sky news hefur það ekki fengist staðfest, né er ljóst hvernig hann er sagður hafa komið að árásinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×