Sport

Hathaway við Gunnar: Þú ert herramaður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Nelson berst ekki við Hathaway.
Gunnar Nelson berst ekki við Hathaway. vísir/getty
Gunnar Nelson berst ekki við Englendinginn John Hathaway á risa UFC-kvöldinu sem fram fer í Las Vegas þann 11. júlí eins og greint var frá í gær.

Gunnar fékk í raun erfiðari mótherja, Bandaríkjamann að nafni Brandon Thatch sem er mikill nagli með árangurinn 11-2 í blönduðum bardagalistum.

UFC 189-kvöldið er það stærsta í sögu UFC en 11. júlí verður barist um tvo heimsmeistaratitla; bæði í fjaðurvigt og veltivigtinni sem Gunnar keppir í.

Það var því mikið áfall fyrir Hathaway, sem er að koma til baka eftir meiðsli og tap, að geta ekki keppt við Gunnar á aðalhluta bardagakvöldsins.

Oft þegar menn draga sig úr keppni vegna meiðsla eða hætta við bardaga tekur hinn bardagakappinn því ekki vel. Geta menn átt í misgáfulegum orðaskiptum í gegnum fjölmiðla og á Twitter.

Gunnar fór þó aðra leið og óskaði Hathaway velfarnaðar. Gunnar svo sem ekki þekktur fyrir að búa til eitthvað fjölmiðlastríð.

„Hlutirnir ganga sjaldnast upp eins og menn vilja í þessum heimi. Láttu þér batna fljótt,“ skrifaði Gunnar Nelson á Twitter-síðu sína.

Hathaway var ánægður með skilaboðin frá Gunnari og þakkaði fyrir sig: „Þú ert herramaður. Kannski síðar. Gangi þér sem best í bardaganum,“ skrifaði Englendingurinn.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×