Sport

UFC 189 í uppnámi: Hathaway berst ekki við Gunnar og óvissa með bardaga Conors

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bandaríkjamaðurinn John Hathaway, sem átti að berjast við Gunnar Nelson á UFC 189-bardagakvöldinu í Las Vegas 11. júlí, er meiddur og þ.a.l. hættur við að berjast.

Bandaríski MMA-miðillinn mmajunkie.com greinir frá þessu í kvöld, en Hathaway vill ekki gefa upp hvaða er að hrjá hann.

UFC leitar nú logandi ljósi að manni til að fylla í skarðið fyrir Hathaway enda bardagi Gunnars kominn á aðalhluta þessa magnaða kvölds sem verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Þetta er í fjórða sinn sem andstæðingar Gunnars hætta við bardaga á síðustu stundu gegn honum í UFC. Fram kemur á MMAfréttir.is að bardagakappinn Erick Silva gæti hlaupið í skarðið.

UFC 189-kvöldið er komið í mikið uppnám þar sem brasilíski blaðamaðurinn Ane Hissa heldur því fram að Jose Aldo, heimsmeistarinn í fjaðurvigt, sé með brákað rifbein. MMA-fréttir greina frá.

Aldo á að berjast við írska vélbyssukjaftinn Conor McGregor um heimsmeistaratitilinn í fjaðurvigt sama kvöld, en Írinn er góðvinur Gunnars og æfa þeir saman þessa dagana í Vegas.

UFC hefur þó ekkert gefið út um meiðsli Aldos og getur vel verið að bardaginn fari fram.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×