San Antonio Spurs er óumdeildur sigurvegari á NBA-leikmannamarkaðnum í sumar en liðið, sem jafnan er rólegt í að fá til sín stórar stjörnur með lausa samninga, bætti við annarri skrautfjöður í gær.
David West ákvað að semja við liðið en hann er öflugur leikmaður sem á að baki stjörnuleiki í NBA-deildinni í körfubolta. Það sem skiptir kannski mestu máli er að hann er tilbúinn að fórna miklu fyrir meistaratitil og það hljómar vel í eyrum þjálfarans Gregg Popovich.
Spurs gat ekki boðið honum góðan samning en West vildi komast í lið sem á möguleika á að verða NBA-meistari. Hann gat fengið 12,6 milljónir dollara frá Indiana Pacers fyrir næsta tímabil en ákvað frekar að semja við Spurs á lágmarkssamning. Hann fær því “bara“ 1,5 milljónir dollara fyrir næsta tímabil eða 200 milljónir íslenskra króna.
West fórnaði því um ellefu milljónum dollara eða 1,478 milljörðum íslenskra króna til að geta spilað með liði sem nú er orðið það sigurstranglegasta í NBA-deildinni á næstu leiktíð.
David West er 206 sentímetra framherji sem hefur spilað í deildinni í tólf ár. Hann var valinn af New Orleans Hornets sumarið 2003.
David West var með með 11,7 stig, 6,8 fráköst og 3,4 stoðsendingar að meðaltali með Indiana Pacers á síðustu leiktíð en þar hefur hann spilað frá 2011. Hann er klókur og útsjónarsamur og ætti að bæta miklu við breidd Spurs-liðsins.
Það hefur hreinlega allt gengið upp hjá í leikmannamálunum í sumar. Félagið framlengdi samninga sína við Tim Duncan, Kawhi Leonard, Manu Ginobili og Danny Green auk þess að krækja í einn feitast bitann á markaðnum sem var LaMarcus Aldridge.
Gregg Popovich og Tim Duncan eiga því góða möguleika á því að vinna sjötta NBA-meistaratitilinn saman næsta vor.
Körfubolti