Miðherjinn Tyson Chandler og bakvörðurinn Brandon Knight fá báðir flotta samninga hjá NBA-liði Phoenix Suns en bandarískir fjölmiðlar greina fá samkomulagi Arizona-félagsins við báða þessa leikmenn.
Báðir leikmenn skrifa þó ekki undir fyrr en 9. júlí sem er fyrsti mögulegi dagurinn fyrir NBA-liðin að ganga frá samningum við leikmenn.
Tyson Chandler, sem er orðinn 32 ára gamall, gerir fjögurra ára samning sem mun gefa honum 52 milljónir dollara í aðra hönd eða tæplega sjö milljarða íslenskra króna.
Chandler spilaði með Dallas Mavericks á síðustu leiktíð en þar áður var hann í þrjú ár hjá New York Knicks sem gerði fjögurra ára og 58 milljón dollara samning við hann sumarið 2011. Aðeins nokkrum mánuðum fyrr hafði hann orðið NBA-meistari með Dallas Mavericks.
Chandler hefur spilað í NBA-deildinni frá 2001 en hann var valinn varnarmaður ársins 2012. Hann átti mjög gott tímabil með Dallas þar sem hann var í leiðtogahlutverki í klefanum auk þess að skora 10,3 stig og taka 11,5 fráköst að meðaltali í leik. Næsta tímabil verður hans sextánda í NBA-deildinni.
Brandon Knight er að semja aftur við Phoenix Suns en hann fær 70 milljónir dollara eða 9,3 milljarða íslenskra króna fyrir fimm ára samning. Knight kom til Phoenix Suns eftir áramót en hann lék áður með Detroit Pistons (2011-13) og Milwaukee Bucks (2013–2015).
Brandon Knight var með 13,4 stig og 4,5 stoðsendingar að meðaltali með Phoenix Suns seinni hluta tímabilsins en skoraði 17,8 stig og gaf 5,4 stoðsendingar fyrri hluta tímabilsins með Milwaukee Bucks.
Körfubolti