Erlent

Trump um McCain: „Mér líkar við fólk sem var ekki tekið til fanga“

Atli Ísleifsson skrifar
Auðjöfurinn Donald Trump hefur mælst með mest fylgi meðal þeirra Repúblikana sem vilja verða forsetaframbjóðendur flokksins að ári.
Auðjöfurinn Donald Trump hefur mælst með mest fylgi meðal þeirra Repúblikana sem vilja verða forsetaframbjóðendur flokksins að ári. Vísir/AFP
Bandaríski auðjöfurinn og forsetaframbjóðandinn Donald Trump gagnrýndi öldungadeildarþingmanninn og fyrrum forsetaframbjóðandann John McCain harðlega á fundi fyrr í dag.

Fundarstjórinn lýsti á einum tímapunkti McCain sem „stríðshetju“, en Trump sagðist ekki geta tekið undir það. „Hann er ekki stríðshetja. Hann er stríðshetja af því að hann var tekinn til fanga. Mér líkar betur við fólk sem var ekki tekið til fanga.“

Trump berst nú fyrir að verða forsetaefni Repúblikana í bandarísku forsetakosningunum sem fram fara á næsta ári.

Trump lét orðinn falla á kosningafundi í Iowa. Fjölmargir í salnum bauluðu eftir að Trump lét orðin falla. Þá hafa margir mótframbjóðendur hans fordæmt orðin og segja McCain vera sanna hetju.

Í frétt Washington Post segir að Trump hafi í nýlegum skoðanakönnunum mælst með mest fylgi meðal þeirra Repúblikana sem berjast um að tilnefningu flokksins.

McCain og Trump tókust hart á fyrr í vikunni þar sem McCain gagnrýndi Trump fyrir orð hans um mexíkóska innflytjendur. Svaraði Trump því til að McCain væri bjáni sem hafi útskrifast úr herskóla með lægstu einkunn af öllum í árgangnum.

McCain byggði kosningabaráttu sína árið 2008 að stórum hluta á ferli sínum í hernum. McCain þjónaði sem herflugmaður í Víetnamstríðinu og var tekinn til fanga eftir að vél hans var skotin niður. Var honum að lokum sleppt eftir að hafa verið haldið föngnum í fimm ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×