Innlent

Framkvæmdastjóri hjúkrunar: Engin heildarlausn að fá erlent vinnuafl

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Það er engin heildarlausn til að bregðast við fjöldauppsögnum hjúkrunarfræðinga að fá erlent vinnuafl til starfa hér á landi. Þetta segir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum. Reynslan af slíku vinnuafli sé misgóð.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að til greina kæmi að fá erlent vinnuafl til starfa á Landspítalanum, meðal annars til að bregðast við fjöldauppsögnum hjúkrunarfræðinga. Sagði hann málið hafa verið rætt við stjórnendur spítalans og innan ráðuneytisins.

Sjá einnig: Bjarni telur hjúkrunarfræðinga í „lagalegum loftfimleikum“

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, segir spítalann hafa þurft að reiða sig nokkuð á erlent vinnuafl á árunum 2004 til 2007, en þá hafi verið erfitt að manna stöður. Reynslan af erlendu vinnuafli hafi verið misgóð.

„Ég myndi nú ekki segja að það væri nein heildarlausn sem felist í því, þó það hafi komið hingað vissulega gott fólk,“ segir Sigríður. „En við stóðum líka frammi fyrir því að fá hérna hjúkrunarfræðinga sem voru bara hreinlega sendir til baka innan viku, af því að þeir gátu ekki sinnt þeim störfum sem þeim var ætlað hér.“

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum.Vísir/Ernir
Því fylgi aukinn kostnaður að fá erlent vinnuafl. Auk þess að greiða kjarasamningsbundin laun, myndi bætast við þjálfunarkostnaður.

„En ef þú ert að tala um einstakling sem talar ekki málið og þekkir ekki samfélagið og heilbrigðiskerfið, þá myndi sú þjálfun taka mun lengri tíma og því fylgir auðvitað bara aukinn kostnaður,” segir Sigríður.

Sjá einnig: Gjörgæslan verður óstarfhæf 1. október

Það væri algjört frumskilyrði að erlendir starfsmenn myndu læra íslensku, enda séu góð samskipti grunnurinn að starfi hjúkrunarfræðinga.

„Og í raun algjör forsenda fyrir því að við getum veitt örugga þjónustu, að samskipti gangi snurðulaust fyrir sig.”

Þá veltir Sigríður því fyrir sér hversu mikil aðsóknin yrði í þessi störf.

„Þeir sem eru á annað borð að færa sig milli landa, þetta er alþjóðlegur vinnumarkaður, þannig að maður veit ekki hvort þeir myndu kjósa að koma hingað,” segir Sigríður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×