Erlent

Stefna að aukinni notkun dróna

Samúel Karl Ólason skrifar
Dróni af gerðinni Reaper á flugi yfir Nígeríu.
Dróni af gerðinni Reaper á flugi yfir Nígeríu. Vísir/AFP
Heryfirvöld í Bandaríkjunum stefna að því að auka notkun dróna um helming á næstu árum. Ástæður þessa eru aukin umsvif og aukinn hernaðarmáttur Kínverja sem og aukin árásargirni Rússa.

Ákveðið hefur verið að leyfa landhernum að fljúga drónum en almennir borgara sem vinna sem verktakar fyrir herinn munu einnig fljúga drónum. Það er gert þar sem álag á drónaflugmenn flughers Bandaríkjanna er þegar of mikið og var nýlega farið fram á að flugferðum yrði fækkað.

Drónar eru notaðir í hernaðarlegum tilgangi um 65 sinnum á degi hverjum.

Háttsettir embættismenn sögðu AP fréttaveitunni að þrátt fyrir að hingað til hafi drónar að mestu verið notaðir gegn hryðjuverkamönnum og til þess að afla upplýsinga yfir átakasvæðum, gæti það breyst á næstu árum. Horft er til aukinnar árásargirni Rússa og aukinna aðgerða Kínverja í Suður-Kínahafi.

Háttsettir leiðtogar herafla Bandaríkjanna og þar á meðal verðandi yfirmaður bandaríska herráðsins, hafa sagt að Rússland sé nú stærsta öryggisógn Bandaríkjanna.

Sérsveitir Bandaríkjanna og verktakar myndu stýra óvopnuðum drónum og nota þá til að afla upplýsinga í um tíu ferðum á dag. Herinn myndi fljúga um 16 ferðir. Flugher Bandaríkjanna myndi stýra um 60 flugum.

Fyrir nokkrum árum var talið að draga myndi úr þörfinni fyrir dróna með lokum þátttöku Bandaríkjanna í hernaði í Afganistan og Írak. Hins vegar hefur þörfin einungis aukist. Meðal annars vegna stækkunar Íslamska ríkisins og aukinna umsvifa hryðjuverkahópa í Afríku.

Flugher Bandaríkjanna hefur nú þjálfað um 180 nýja flugmenn á ári hverju, en þörfin er komin upp í um 300 flugmenn á ári. Hernum og verktökum er ætlað að draga úr álagi á flugherinn á meðan fleiri flugmenn eru þjálfaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×