„Við erum ótrúlega svekktar með lokatölur leiksins, að mínu mati vorum við betri aðilinn í leiknum þrátt fyrir að tapa 1-3 á heimavelli,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, svekkt eftir tap gegn Zvezda 2005 á heimavelli í kvöld.
„Það er grátlegt fyrir jafn reynslumikið lið og við erum með að lenda aftur undir 2-0 á fyrsta korterinu og þetta á einfaldlega ekki að gerast.“
Ásgerður sagði að liðið hefði lagt upp með að stöðva José Nahi í kvöld sem skoraði fjögur mörk í leik liðanna í fyrra.
„Við ætluðum að liggja aðeins aftar og minnka svæðið fyrir hana til að hlaupa í og mér fannst hún ekki gera neitt í dag. Það opnaði fyrir kantmennina þeirra en við eigum að ráða betur við þetta.“
Ásgerður var óánægð með spilamennsku liðsins í upphafi leiks en liðinu gekk illa að halda bolta og mátti greinilega sjá stress hjá leikmönnum liðsins.
„Það er ekki endalaust hægt að skýla sér á bak við taugatrekking. Þetta er þriðja árið í röð sem við keppum í Evrópu og við erum með landsliðsmenn í okkar röðum þannig að við eigum að hrista þetta úr okkur strax.“
Ásgerður sagðist ekki vera búin að gefa upp von um að komast í 16-liða úrslitin.
„Við sýndum það í dag að við erum með betra lið en þær og við getum alveg farið til Rússland og unnið þær þar. Við létum markmanninn þeirra líta vel út í dag en hún virðist ekki halda neinum boltum. Við þurfum að vera með meira sjálfstraust fyrir framan markið,“ sagði Ásgerður og bætti við:
„Við erum ekki að fara út til þess að fara í skotgrafirnar og halda jafnteflinu. Við ætlum að vinna þennan leik og spila annan leik hér í nóvember.“
Ásgerður: Sýndum það í kvöld að við erum með betra liðið

Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - Zvezda 2005 1-3 | Rússarnir unnu Stjörnustríðið í Garðabænum
Rússneska félagið Zvezda vann 3-1 sigur á Stjörnunni í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld en Stjörnukonur voru einfaldlega óheppnar að tapa leiknum eftir að hafa fengið færin til að jafna leikinn í seinni hálfleik.