Innlent

„Höfum sjaldan séð það verra“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Mynd/Landspítalinn
Alvarleg staða hefur myndast á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi þar sem erfiðlega gengur að koma sjúklingum af bráðamóttöku yfir á aðrar deildir. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir ástandið grafalvarlegt.

„Við höfum sjaldan séð það verra. Þetta er það sem við sjáum oft þegar verkföllin eru að byrja, þau ganga ágætlega í fyrstu en síðan fer virkilega að þyngjast. En þetta er með því alversta,“ sagði Páll í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Hann segir álag á spítalanum um tvöfalt meira en gengur og gerist. Hann hvetur því heilsugæslustöðvar og önnur sjúkrahús til að nýta sér undanþágunefndir Sjúkraliðafélagsins og SFR stéttarfélags.

 „Það er mikið álag og það er erfitt að koma fólki héðan, sem gæti í rauninni verið við minni hjúkrun eða þjónustu en við bjóðum upp á hér. Þannig að ég verð að biðla til fólks að koma ekki nema nauðsyn beri til, en alls ekki að sleppa því ef fólk þarf á að halda.“

Þá segir Páll nauðsynlegt að deiluaðilar nái sáttum. „Þetta er orðið ansi þreytandi og í raun þurfa allir að leggjast á eitt svo það verði ekki hættuástand hér. En sem betur fer höfum við mjög öflugt fólk og það leggjast allir á eitt þannig að þetta gengur, en það er mikið álag á starfsfólkið.“

Viðtalið við Pál má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×