Erlent

Sakar Sanders um linkind í byssumálinu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bernie Sanders og Hillary Clinton í sjónvarpskappræðum demókrata á þriðjudagskvöld.
Bernie Sanders og Hillary Clinton í sjónvarpskappræðum demókrata á þriðjudagskvöld. vísir/epa
Hillary Clinton fékk á þriðjudagskvöldið tækifæri til að koma höggi á mótherja sinn, Bernie Sanders, og sakaði hann um linkind gagnvart byssuframleiðendum og skotvopnafíklum í Bandaríkjunum.

„Nei, alls ekki,“ svaraði hún þegar stjórnandi sjónvarpskappræðna demókrata spurði hvort hún teldi Sanders nægilega harðan í byssumálinu.

„Sanders öldungadeildarþingmaður greiddi fimm sinnum atkvæði gegn Brady-frumvarpinu. Eftir að það var samþykkt hefur í meira en tvær milljónir skipta verið komið í veg fyrir byssukaup,“ sagði Clinton í kappræðunum, þar sem fimm demókratar tókust á um það hver þeirra eigi að verða forsetaefni flokksins á næsta ári.

Sanders svaraði því til að vissulega vildi hann stranga byssulöggjöf í Bandaríkjunum. Í þessu tiltekna frumvarpi hefðu hins vegar verið ýmis ákvæði sem hann gat ekki sætt sig við. Svo vísaði hann til þess að kjósendur hans í Vermont væru ekki sérlega áhugasamir um stranga byssulöggjöf: „Ég kem úr dreifbýlisríki og afstaðan til skotvopnaeftirlits er önnur í dreifbýlisríkjum en í þéttbýlisríkjum, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.“

Þau Clinton deildu um ýmis önnur mál í kappræðunum en voru hins vegar alveg á einu máli um tölvupóstavandræðin sem andstæðingar þeirra hafa verið að velta Clinton upp úr.

„Ég held að bandaríska þjóðin sé búin að fá miklu meira en nóg af því að heyra um fjárans tölvupóstana þína,“ sagði Sanders, og þá brosti Clinton breitt, þakkaði honum fyrir og tók í höndina á honum.

Þrír aðrir demókratar tóku þátt í sjónvarpskappræðunum og sækjast allir eftir að verða forsetaefni flokks síns í kosningunum, sem haldnar verða í nóvember á næsta ári.

Þetta eru þeir Martin O'Malley, Lincoln Chafee og Jim Webb. Enginn þeirra mælist með minnstu möguleika í skoðanakönnunum. Þar gnæfir Clinton enn yfir aðra, með 43,3 prósenta fylgi samkvæmt nýjustu samantekt á vefsíðunni Realclearpolitics.com.

Sanders mælist þar með 25 prósent og Joe Biden varaforseti er í þriðja sæti, með rúm 17, þrátt fyrir að hafa ekki blandað sér í slaginn. Hann hefur enn ekki tekið af skarið og hvorki lýst yfir framboði né útilokað það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×