Innlent

Útlit fyrir að verkföll haldi áfram

Lillý Valgerður Péturdóttir skrifar
Formenn LL, SLFÍ og SFR á fundi í Karphúsinu.
Formenn LL, SLFÍ og SFR á fundi í Karphúsinu. Vísir/GVA
Útlit er fyrir að verkföll sjúkraliða og SFR-félaga haldi áfram á morgun. Þrátt fyrir stíf fundarhöld í Karphúsinu alla helgina virðist enn nokkuð í að samkomulag náist um nýja kjarasamninga.

Tíu dagar eru síðan að verkfallsaðgerðir sjúkraliða og félagsmanna SFR hófust. Síðan þá hafa sextán hundruð starfsmenn Landspítalans verið í allsherjarverkfalli svo og SFR-félagar hjá Tollstjóranum, hjá sýslumannsembættunum um allt land og hjá Ríkisskattstjóra. Þá hafa starfsmenn ríflega 150 ríkisstofnanna til viðbótar farið í skemmri verkföll.

Samninganefndir sjúkraliða, SFR, lögreglumanna og ríkisins funduðu í Karphúsinu í gær í nærri hálfan sólarhring í von um að leysa deiluna. Þær hittust svo aftur fundi fyrir hádegi í dag. Þrátt fyrir langa fundi virðast nýjir kjarasamningar ekki enn vera í sjónmáli. „Ég geri fastlega ráð fyrir því að verkfallið haldi áfram á morgun. Það þarf ansi mikið að gerast hér ákkurat til þess að svo verði ekki,“ segir Árni Stefán Jónsson formaður SFR.

Árni segir þó að miðað hafi í rétta átt um helgina í viðræðunum. „Okkur hefur miðað bara alveg þokkalega áfram. Svo að við erum svo sem enn þá að reyna að ná endanlega niðurstöðu í svona launaliðinn, það er ekki alveg komið. Svo erum við aðeins farin að líka að ræða svona sérmál félaganna. Þetta svona er eðlilegur gangur á þessu en maður veit aldrei hvenær þessu líkur,“ segir Árni Stefán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×