„Það breytir engu þó að einhverjir geti grætt á loftslagsbreytingum, grætt á því að nýta auðlindir Norðurskautsins, grætt á nýjum siglingaleiðum. Við eigum ekki að græða á því sem veldur eymd annarra, sem skaðar náttúruna.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í setningarræðu sinni á landsfundi flokksins í gær.
Hún hélt áfram: „Við höfum raunverulega möguleika á því að verða kolefnishlutlaust land. Við getum sagt: Olíuvinnsla er ekki valkostur miðað við stöðuna og við ætlum að hverfa frá henni.“ Þetta er þvert á stefnu forvara hennar í embætti formanns, Steingríms J. Sigfússonar, en sem atvinnuvegaráðherra gaf hann út fyrstu leyfi til olíuleitar á Drekasvæðinu.
Í aðdraganda landsfundar hefur fjöldi flokksmanna skorað á starfsmann flokksins, Daníel Hauk Arnarsson, að gefa kost á sér til embættis varaformanns. Viss óánægja hefur ríkt innan flokksins með störf Björns Vals Gíslasonar varaformanns og hann þótt fjarlægur höfuðborgardeild flokksins. Daníel hefur ekki orðið við áskoruninni.