Fastir pennar

Á traustum grunni vísindalegra staðreynda

Þórlindur Kjartansson skrifar
Nánast eins lengi og ég man eftir mér hef ég haft þá sakleysislegu áráttu að telja alltaf tröppur, sérstaklega þegar ég geng upp þær. Mér geðjast mjög illa að því þegar fjöldi þeirra er oddatala þannig að ég þarf að stíga oftar upp með öðrum fætinum heldur en hinum. Ég hef enga hugmynd um af hverju þetta er. Þegar ég var barn var ég viss um að þetta myndi eldast af mér. En það hefur ekki gerst.

Þetta háir mér svo sem ekki mikið; ég fel þetta. Ef ég er einn hins vegar þá á ég það til að stoppa í næstefstu tröppunni og hoppa jafnfætis upp á efsta pallinn og koma þannig í veg fyrir að jafnvægi sköpunarverksins gangi úr skorðum.

Í hvert einasta skipti sem ég finn hjá mér þessa þörf til þess að jafna út skrefafjöldann í tröppum þá hugsa ég með mér hversu fáránleg þessi hugsun sé. En hún er þarna samt – sárameinlaus en fullkomlega heimskuleg.

Hjátrú og hindurvitni

Flestir kannast eflaust við að hafa vanið sig á eitthvað sambærilegt á lífsleiðinni. Íþróttamenn klæðast óþvegnum sokkum vikum saman ef þeir halda að það færi þeim heppni. Leikarar nefna ekki heiti leikritsins Macbeth, af því það boðar óheppni og óska ekki hver öðrum góðs gengis heldur flytja bölbænir um beinbrot í staðinn. Jóakim Aðalönd, ríkasta önd í heimi, átti happapening sem hann taldi uppsprettu og forsendu ríkidæmis síns. Háhýsi víða um heim hafa enga þrettándu hæð, bara tólftu og fjórtándu. Fjöldi fólks fylgist með stjörnuspám og leggur trú á talnaspeki. Og stór meirihluti jarðarbúa aðhyllist einhvers konar trúarbrögð sem í mismiklum mæli gera þá kröfu að menn afsali sér heilbrigðri skynsemi og rökhyggju en leggi í blindni trúnað á ýmiss konar kraftaverkasögur.

Og svo eru það þeir sem vilja trúa því að ef framliðnir eigi við þá erindi þá geti þeir komið skilaboðum á framfæri í gegnum sérþjálfaða sjáendur.

Nú í vikunni fjallaði útvarpsmaðurinn Frosti Logason um miðilsfund sem hann sótti, eða öllu heldur ofsótti. Hann var lítt hrifinn. Í kjölfarið spratt upp einhver skemmtilegasta tilgangslausa deila síðari ára. Útvarpsmaðurinn benti á það sem ætti öllu hugsandi fólki að vera fullkomlega augljóst; miðilsfundurinn var að sjálfsögðu algjört plat og frat. Miðillinn kunni ekkert að tala við framliðna heldur reyndi af sinni bestu getu að giska á hvaða skilaboð fundargestir gætu talið trúverðugt að þeir fengju að handan. Spámiðillinn svarað með því að segjast bara víst kunna að tala við drauga. Fjölmiðlar voru auðvitað mjög áhugasamir um að kanna málið betur, gefa báðum sjónarmiðum tilhlýðilegt vægi og leyfa áhorfendum að vega og meta. Í öllu falli, frábært sjónvarpsefni.

Og til þess að toppa skemmtunina voru það fulltrúar hinnar kristnu íslensku þjóðkirkju sem fyrstir og ákafastir komu hindurvitnunum til varnar. Það er áhugavert í ljósi þess að kennisetningar kirkjunnar leggja blátt bann við hvers kyns andakukli og leggja meira að segja við því þyngstu mögulegu refsingu. Gamla testamentið vill meina að særingarmenn skuli grýta til dauðs. Verður í því ljósi að telja að starfsöryggi spámiðla hafi tekið umtalsverðum framförum á umliðnum öldum úr því dónaskapur úr munni útvarpsmanns þyki nú vera svo óboðleg framkoma að hún kalli á bannfæringarkröfu frá fulltrúa kirkjunnar.

Útvarpsmaðurinn benti á það, algjörlega með réttu að mínu mati, að starfsemi spámiðilsins væri í raun peningaplokk, þar sem lagt er net fyrir þá sem eiga um sárt að binda, og þeim seldar falskar vonir og væntingar, hughreysting og huggun. Í þessu ljósi mætti taka undir að vinna spámiðils sé ekki beinlínis heiðarleg í strangasta skilningi þess orðs. En mikilvæga spurningin er kannski ekki endilega hvort þessi starfsemi sé heiðarleg, heldur hvort þetta skipti yfirhöfuð einhverju máli.

Dagleg tilvera okkar er uppfull af alls kyns starfsemi, sem er ekki beinlínis „heiðarleg“ heldur hluti af eins konar samfélagslegum leik þar sem hvert og eitt okkar tekur ákvörðun um þátttöku. Er það til dæmis heiðar­leg vinna að selja fólki lottómiða, á þeim forsendum að þannig geti það komið í veg fyrir að lottóspilarar annars staðar í heiminum fái vinning? Er það heiðarlegt að byggja upp spennu í kringum íþróttaleiki og halda því fram að þessi og hinn leikurinn sé „mikilvægur“ þegar við vitum öll að niðurstaðan skiptir nákvæmlega engu máli um líf okkar eða afkomu? Er það heiðarlegt þegar læknar og prestar segja sjúklingum og bágstöddum að það sé von, þegar hún er í raun og veru engin?

Skaðlaus óskynsemi

Stjörnuspárnar í Morgunblaðinu voru lengi vel eina efnið í því blaði sem ástæða þótti til að setja sérstakan fyrirvara um. Þar stóð neðst að þær byggðust ekki á traustum grunni vísindalegra staðreynda. En það mátti samt hafa gaman af þeim og það er líklega algjörlega skaðlaust að ganga inn í daginn með þá trú að einhver ókunnugur muni gera góðverk, eða að dagurinn sé upplagður til þess að taka stórar ákvarðanir. Það skaðar heldur engan að telja tröppur og vonast eftir sléttri tölu og meira að segja það að ganga í óhreinum og sveittum sokkum er ekkert tiltökumál, þannig séð.

Að sama skapi er það ekkert endilega neitt tiltökumál þótt einhverjir hafi lífsafkomu sína af því að segja fólki að afi vaki yfir þeim á himnum og segi að þetta muni allt fara vel. Stundum þurfum við á því að halda, og veljum að trúa því, þótt við vitum að það sé ekki endilega byggt á traustum grunni vísindalegra staðreynda.






×