Sport

Isinbajeva reynir að komast bakdyramegin inn á ÓL 2016

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yelena Isinbayeva eftir sigur sinn á ÓL 2008.
Yelena Isinbayeva eftir sigur sinn á ÓL 2008. Vísir/Getty
Rússneski stangastökkvarinn Yelena Isinbayeva leitar nú allra leiða til að fá að keppa á Ólympíuleikunum í Ríó á næsta ári en eins og kunnugt er setti Alþjóðafrjálsíþróttasambandið Rússa í bann frá þátttöku í öllum alþjóðlegum keppnum.

Isinbayeva vill fá að keppa undir merkjum Alþjóðólympíunefndarinnar nú þegar hún getur ekki keppt fyrir Rússland. Isinbayeva verður 34 ára í júní á næsta ári og þetta er því líklega síðasti möguleiki hennar til að keppa á Ólympíuleikum.

„Ég er ekki viss um hvort að það sé möguleiki á því að ég geti keppt undir fána Alþjóðólympíunefndarinnar. Það er verið að skoða það núna en enginn veit það með vissu," sagði Yelena Isinbayeva í viðtali við TASS.ru.

Isinbayeva vann gull á leikunum í Aþenu 2004 og í Peking 2008 og setti þá heimsmet í bæði skiptin. Hún fékk síðan brons á síðustu Ólympíuleikum í London 2012.

Isinbayeva segist vera tilbúinn að fara með þá fyrir dómstóla sem halda því fram að hún hafi notað ólögleg lyf.  „Ef einhver sakar um mig ólöglega lyfjanotkun þá mun ég verja mig fyrir dómi. Ég mun fara í öll möguleg próf og fá alla bestu lögmennina til að verja mig," sagði Isinbayeva.

22 af 23 þjóðum kusu með því að setja Rússa í bann eftir að upp komst um viðamikla ólöglega lyfjanotkun rússnesks frjálsíþróttafólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×