Sjúkraliðar hafa samþykkt kjarasamning ríkisins sem skrifað var undir í lok síðasta mánaðar við þrjú stærstu aðildarfélög BSRB, Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ), Landssamband lögreglumanna (LL) og SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu. Þegar skrifað var undir samninginn höfðu verkfallsaðgerðir SFR og SLFÍ staðið frá miðjum október.
Í atkvæðagreiðslunni, sem lauk í gær eftir að hafa staðið frá 5. nóvember, samþykktu 96,3 prósent sjúkraliða samninginn. Nei sögðu 3,3 prósent. Þátttaka var 59,9 prósent, en 666 af 1.111 á kjörskrá greiddu atkvæði.
Atkvæðagreiðsla um samninginn stendur yfir hjá bæði SFR og LL. Niðurstöðu er að vænta hjá SFR næstkomandi mánudag og á miðvikudag hjá lögreglumönnum.
Í samantekt á vef BSRB í gær kemur fram að enn eigi fjölmörg aðildarfélög bandalagsins eftir að klára nýja kjarasamninga. „Bæjarstarfsmannafélögin innan BSRB hafa undanfarnar vikur setið á fundum með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga en ekki hefur verið lokið við gerð samninga. Þá hafa samninganefndir Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar átt reglulega fundi undanfarið með fulltrúum borgarinnar,“ segir þar og tekið fram að áfram verði fundað í þessari viku.
„Stærstur hluti félagsmanna umræddra félaga fær laun sín frá sveitarfélögunum þannig að bæjarstarfsmennirnir eru stærsti hópurinn innan BSRB sem enn er með lausa samninga.“
Þá hafa nokkur félög lokið og samþykkt nýja kjarasamninga, svo sem Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins, Póstmannafélag Íslands og Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum fyrir starfsmenn hjá Orkubúi Vestfjarða. Þá kemur fram að Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar hafi skrifað undir samning við Orkuveituna. „Kjarasamningurinn verður kynntur á næstu dögum og greidd um hann atkvæði.“
Þá eiga að liggja fyrir eftir rúma viku niðurstöður atkvæðagreiðslu um kjarasamning Félags starfsmanna Stjórnarráðsins, en frá honum var gengið síðasta föstudag. Í næstu viku á líka að liggja fyrir niðurstaða kjarasamnings samninganefndar samflots bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB við ríkið vegna starfsmanna hjá heilbrigðisstofnunum.
Haukar
Galychanka Lviv