Innlent

Gæti orðið láglaunasvæði með tímanum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þungt hljóð er í starfsmönnum álversins í Straumsvík. Formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar segir þeim blæða fyrir harða afstöðu forsvarsmanna ÍSAL um að hverfa ekki frá kröfunni um að bjóða fleiri störf út til verktöku. Starfsmennirnir íhuga næstu skref en til greina kemur að grípa til útflutningsbanns.

Starfsmennirnir funduðu í dag með verkalýðfélögum sínum þar sem farið var yfir þá stöðu sem upp er komin í kjaradeilu þeirra og stjórnenda álversins. Þungt hljóð var í þeim starfsmönnum sem fréttastofa ræddi við að loknum fundinum en enginn þeirra treysti sér í viðtal.

„Fólkið er náttúrulega miður sín að það skuli ekki vera hægt að ganga frá kjarasamningi hérna fyrir það eins og er búið að semja á almennum markaði. En og við fáum náttúrulega gagnrýni á það að ljúka ekki samningi. En við erum ekki tilbúnir að ljúka samningi nema þá að við séum að auka launahækkanir til starfsmanna “, segirKolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar.

Deilan strandar á kröfu stjórnenda fyrirtækisins um að fá heimild til að bjóða út fleiri störf til verktöku. Það segja starfsmennirnir ekki koma til greina. Í dag starfa um 350 manns í álverinu en störfin sem hugsanlega verða boðin út gætu orðið allt að eitt hundrað. „Við erum náttúrulega með einn kjarasamning þarna og það er náttúrulega, við erum að semja fyrir alla starfsmenn sem eru undir kjarasamningnum. Við getum ekki verið að selja hluta af okkar fólki út. Og ef að menn fara að opna þetta hér varðandi fylgiskjalið og opna fyrir fleiri starfsmenn í öðrum hérna fyrirtækjum inn á svæðið þá eru menn eingöngu hérna að reyna að ná niður launakjörum. Og ég sé það fyrir mér þannig í framtíðinni að ef að þetta verður opnað þetta fylgiskjal að þá stefnir þetta í láglaunasvæði hérna með tímanum, “ segir Kolbeinn.

Kolbeinn segir að verið sé að íhuga til hvaða aðgerða starfsfólkið geti gripið næst. „En við sjáum náttúrulega að það er hægt að fara eins og maður segir í hérna útflutningsbann. Yfirvinnubann var náttúrulega þarna reynt í sumar og það var að skila töluvert góðum árangri, “ segir Kolbeinn.

Enginn nýr samningafundur hefur verið boðaður í kjaradeilunni hjá ríkissáttasemjara. Kolbeinn segir starfsmennina verða af þeim launahækkunum sem náðst hafa á vinnumarkaðnum undanfarið á meðan deilan heldur áfram að vera í hnút. „Meðan að ÍSAL heldur sig alveg fast við það að hérna þeir séu ekki tilbúnir að skrifa undir samning nema opna verktakalýsinguna, að þá eru bara starfsmennirnir í biðstöðu og því miður þá er fólk að blæða fyrir það, “ segir Kolbeinn.

                                                                                                                               


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×