Innlent

Rannveig Rist segir engin áform um að loka álverinu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
„Við erum ekki á förum,“ segir Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi.
„Við erum ekki á förum,“ segir Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi. vísir/gva
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, segir engin áform uppi um að loka álverinu, líkt og talsmaður starfsmanna álversins í Straumsvík hefur ítrekað haldið fram. Búið sé að fjárfesta fyrir tugi milljarða og að allt verði gert til að ná sáttum við starfsfólk.

„Það stendur ekki til að loka. Við erum að gera allt sem við getum til að semja og ná hér eðlilegum starfsskilyrðum, það er það sem við erum að vinna að. Við værum ekki búin að bjóða það sama á íslenskum markaði, sem eru tugprósenta hækkanir, bjóða bónusa og ýmislegt fleira,“ segir Rannveig í samtali við fréttastofu. Fyrirtækið færi aðrar leiðir, væru hugmyndir uppi um að loka álverinu.

„Við erum að vinna að því að láta þennan rekstur ganga vel og ganga áfram. Við erum nýbúin að fjárfesta hér fyrir tugi milljarða, þannig að við erum ekki á förum.“

Þá segir hún ekki koma til greina að draga í land með kröfur sínar um aukna heimild til verktöku. „Okkur finnst eðlilegt að við komumst inn í svipað starfsumhverfi og önnur fyrirtæki á Íslandi. Þarna er ákvæði frá 1972 sem við viljum fá að breyta til jafns við önnur fyrirtæki á landinu. Önnur fyrirtæki eru ekki með nein svona skilyrði þannig að okkur finnst eðlilegt að við fáum að njóta sömu starfsskilyrða og aðrir, það er okkur mikilvægt,“ segir Rannveig.

Aðspurð hvort Rio Tinto gæti selt orkuna áfram, færi svo að álverið lokaði endanlega, sagðist hún ekki geta svarað því. Samningurinn við Landsvirkjun væri trúnaðarmál og sagðist því ekki ætla að tjá sig um hann að neinu leiti.


Tengdar fréttir

Rannveig vongóð um að sátt náist í tæka tíð

Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi er vongóð um að samnningar við starfsmenn náist áður en allsherjarverkfall þeirra hefst á miðnætti. Fundað hefur verið með óformlegum hætti í allan dag og funda samninganefndinar nú hjá ríkissáttasemjara, þó ekki með formlegum hætti.

Landsvirkjun hljóð og minnir á samninginn

Forsvarsmenn Landsvirkjunar neita að tjá sig um kjaradeiluna í Straumsvík og samning um raforkukaup við Rio Tinto Alcan fari svo að álverið verði aflagt. Endurnýjaður samningur um orkukaup var undirritaður fyrir tæpu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×