Starfsmaður ráðuneytisins vísaði til gervihnattarmynda og sagði þær sýna tankbíla frá ISIS keyra til Tyrklands. Hann sagði að Rússar vissu af þremur leiðum þar sem olíu er smyglað inn í Tyrkland frá Sýrlandi. Þá tók hann fram að frekari upplýsingar um aðkomu Tyrkja verði birtar á næstu vikum.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur sagt að hann myndi segja af sér ef ásakanir Rússa yrðu staðfestar. Lengi hefur verið vitað að smyglarar sem stafa í Tyrklandi og víðar kaupi olíu af ISIS.
Sjá einnig: Íslamska ríkið græðir á tá og fingri á olíu
Varnarmálaráðuneyti Rússlands birti fyrr í dag fjögur myndbönd sem sögð eru sýna loftárásir á olíuvinnslur, dælustöðvar og tankbíla. Þá segir ráðuneytið að loftárásir Rússa hafi dregið olíutekjur samtakanna saman um helming, eða úr þremur milljónum dala á dag í 1,5 milljónir.
Rússar segjast hafa eyðilagt 43 olíuvinnslur, 23 dælustöðvar og rúmlega þúsund tankbíla.