Innlent

Rannveig Rist segir löngu tímabært að fá niðurstöðu í kjaraviðræðurnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rannveig Rist.
Rannveig Rist. VÍSIR/GVA
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, segir „ánægjulegt að ekki hafi þurft að byrja að slökkva á kerum álversins í Straumsvík í dag eins og stefndi í vegna yfirvofandi verkfalls sem nú hefur verið aflýst.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Rannveigu sem send var á fjölmiðla nú áðan.

Í yfirlýsingunni segir að það verði áfram verkefnið að fá niðurstöðu í kjaraviðræðurnar sem Rannveig segir að sé löngu orðið tímabært:

„Fulltrúar viðsemjenda okkar hafa ítrekað sagt að deilan strandi ekki á ágreiningi um launakjör.

 

Deilan snýst um þá staðreynd að ISAL situr ekki við sama borð og önnur fyrirtæki hvað varðar möguleika á útvistun verkefna. Hömlurnar á fyrirtækið hvað þetta varðar eiga sér enga hliðstæðu á Íslandi og það er skýr krafa að þær verði rýmkaðar eins og við höfum farið fram á. Það felur ekki í sér neinar heimildir eða svigrúm sem önnur fyrirtæki hafa ekki almennt á Íslandi,“ segir Rannveig í yfirlýsingunni.

Eins og greint hefur verið frá var verkfallinu aflýst í gærkvöldi en það átti að skella á á miðnætti. Rætt var við Gylfa Ingvarsson, talsmann starfsmanna álversins í Straumsvík, í Bítinu í morgun. Hann sagði stöðuna sem upp sé komin ótrúverðuga. Ljóst sé að hans mati að ekki sé um kjaradeilu að ræða og telur Gylfi hugsanlegt að stjórnendur álversins hyggist loka því alfarið.


Tengdar fréttir

Rannveig vongóð um að sátt náist í tæka tíð

Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi er vongóð um að samnningar við starfsmenn náist áður en allsherjarverkfall þeirra hefst á miðnætti. Fundað hefur verið með óformlegum hætti í allan dag og funda samninganefndinar nú hjá ríkissáttasemjara, þó ekki með formlegum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×