Jól

Jólakossar og rúlluterta

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Margrét Jóhannsdóttir gerir rúllutertuna ljúffengu um hver jól.
Margrét Jóhannsdóttir gerir rúllutertuna ljúffengu um hver jól. GVA
Hjá Margréti Jóhanns­dóttur þjónustufulltrúa koma jólin ekki án rúllu­tertunnar sem hún ólst upp við að borða á jóladag. "Á jóladagsmorgun fáum við loksins rúlluterturnar hennar ömmu með heitu súkkulaði og rjóma og þá fyrst byrja jólin mín. Það yrðu engin jól án þeirra og við borðum þær ískaldar, nánast frosnar, á jóladag, annan í jólum og á nýársdag. Rúlluterturnar eru líka það eina sem er bakað á aðventunni sem alls ekki má snerta á fyrr en á jóladag.“

Þegar Margrét var lítil var mikil spenna þegar rúlluterturnar voru bakaðar. „Þegar ég var lítil bökuðu mamma og amma þær á meðan við systkinin vorum í skólanum og það var alltaf mikil spenna að koma heim þann daginn og fá að borða endana sem voru skornir af. Terturnar voru þá allar komnar í frysti og við fengum ekki að snerta á þeim fyrr en á jóladag. Yfirleitt eru bakaðar tíu til tuttugu tertur en samt liggur við slagsmálum í hvert skipti sem þær eru bornar á borð og keppnin um mesta súkkulaðið er mikil,“ segir Margrét og brosir.

Fyrir jólin bakar Margrét yfirleitt sex til sjö kökusortir og flestar þeirra oftar en einu sinni og oftar en tvisvar enda er hún mikið jólabarn og finnst samveran með fólkinu sem henni þykir vænst um, jólaljósin, spennan hjá börnunum, maturinn, baksturinn, hefðirnar og kyrrðin gera þennan tíma einstakan.

„Ég baka alltaf rúlluterturnar, sörur, súkkulaðibitakökur, M&M smákökur, lakkrístoppa, vanilluhringi og piparkökur með krökkunum og geri að lokum jólaísinn. Einnig prófa ég líka yfirleitt allavega eina nýja sort fyrir hver jól.“ Auk alls þessa gerir Margrét svokallaða jólakossa sem hún segir vera frekar nýja hefð hjá sér að baka og góða tilbreytingu frá þessum hefðbundnu smákökum.

Jólakossarnir líta vel út.
Jólakossar

Botnar

170 g ósaltað smjör

100 g púðursykur

2 tsk. hunang

¼ tsk. salt

½ tsk. vanillusykur

200 g hveiti

45 g heilhveiti

Smjör, sykur og hunang hrært vel saman. Sigtið hveiti, salt og vanillusykur saman við og hnoðið deigið þar til það verður þétt og slétt. Setjið deigið í plastfilmu og kælið í 30-60 mínútur. Fletjið deigið út og skerið út litla hringi (eins stóra og þið viljið hafa kossana). Setjið hringina á bökunarplötu og stráið örlitlum sykri yfir. 

Bakið í 180°C í tíu til tólf mínútur. Passið að kæla botnana alveg og hjúpið svo með súkkulaði.

Fylling

7 eggjahvítur

450 g sykur

1 vanillustöng (skorin í tvennt og skafið innan úr henni)

Hjúpur

400 g súkkulaði til hjúpa

Setið eggjahvítur, sykur og vanillu í stóra skál. Setjið skálina ofan á pott með sjóðandi vatni og hrærið með handþeytara í um fjórar mínútur eða þar til sykurinn er uppleystur. Færið þá blönduna í hrærivélarskál og þeytið á lágum hraða í fjórar mínútur. Þeytið að lokum á fullum styrk í þrjár mínútur. Setjið fyllinguna í sprautupoka með stórum stút og sprautið á súkkulaðihjúpaða botnana.

Kælið í 30-60 mínútur og hjúpið svo með súkkulaði að eigin vali (ég blanda saman suðusúkkulaði og 70% súkkulaði). Stráið kókosmjöli yfir rétt áður en súkkulaðið harðnar alveg.

Fjölskylda Margrétar gæðir sér á rúllutertunni á jóladag ásamt heitu súkkulaði með rjóma.
Rúlluterta

4 egg

2 dl sykur

2 dl hveiti

1 tsk. ger

Allt hrært saman þar til blandan verður létt og ljós. Sett í smurt form og bakað við 200°C í 6-10 mínútur.

Krem

200 g smjör

300 g púðursykur

2 egg

200 g suðusúkkulaði

Smjör, púðursykur og egg hrært vel saman. Suðusúkkulaðið brætt yfir vatnsbaði og síðan blandað saman við.

Kreminu er svo smurt yfir botnana (og hvergi til sparað), botninum rúllað upp og endarnir skornir af.

Geymt í frysti og borðað ískalt – helst með heitu súkkulaði.



×