Hermann Ragnarsson, sem hefur lagt fjölskyldunni lið, segir albanskan þingmann greiða götu þeirra svo þau komist sem fyrst með Kevi til Íslands.
„Albanskur þingmaður aðstoðar Pepoj-fjölskylduna við að afla gagnanna eins fljótt og kostur er til að þau komist sem fyrst til landsins. Nú eru öll gögn komin til allsherjarnefndar til vinnslu,“ segir Hermann og staðfestir með því að umsókn fyrir fjölskylduna hafi verið lögð fram.
Einnig hefur verið lögð umsókn fyrir Phellumb-fjölskylduna og drenginn Arjan sem glímir við hjartveiki.

Í framhaldinu gerir allsherjarnefnd tillögu að frumvarpi til laga um veitingu ríkisborgararéttar. Tíminn er að verða naumur en talið er áríðandi að frumvarpið verði afgreitt fyrir jólafrí Alþingis. Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar, segist gera ráð fyrir því að frumvarpið verði lagt fram fljótlega.
Þótt báðar albönsku fjölskyldurnar gætu fengið ríkisborgararétt fyrir jól þarf að greiða úr ýmsum flækjum varðandi komu þeirra til landsins. Mikilvægt er að drengirnir tveir, Kevi og Arjan, fái heilbrigðisþjónustu. Nýir ríkisborgarar eru hins vegar undanskildir sjúkratryggingum fyrstu sex mánuðina eftir komu, eða endurkomu til Íslands.
Sjúkratryggingastofnun er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem sjúkratryggður er samkvæmt lögunum sé áfram sjúkratryggður hafi hann dvalið erlendis í námi eða atvinnu en ströng skilyrði eru sett um búsetu á Íslandi áður. Því er ljóst að eins konar undanþágu þarf frá reglum um sjúkratryggingar.