Kobe Bryant snéri aftur í lið Los Angeles Lakers eftir smá hvíld og var í aðalhlutverki í útisigri í Denver. Detroit Pistons vann útisigur á Miami Heat, Toronto vann Dallas og Philadelphia 76ers tapað í 29. sinn í 30 leikjum.
Hinn 37 ára gamli Kobe Bryant jafnaði sinn besta árangur á tímabilinu þegar hann skoraði 31 stig í 111-107 útisigri Los Angeles Lakers á Denver Nuggets. Bryant gaf einnig 5 stoðsendingar og spilaði góða vörn á Will Barton sem var með 23 stig í hálfleik en skoraði bara tvö stig eftir hlé.
Bryant er á sínu tuttugasta og síðasta tímabili á ferlinum og hann sá um að landa þessum sigri með því að setja niður tvö víti þegar 1:23 var eftir og fylgdi því síðan eftir með því að skora tveggja stiga körfu. Þetta var þó aðeins fimmti sigur Lakers á tímabilinu en Kobe hefur spilað mun betur að undanförnu en hann gerði í upphafi leiktíðarinnar.
DeMar DeRozan skoraði 28 stig og Bismack Biyombo var með 20 fráköst þegar Toronto Raptors vann 103-99 heimasigur á Dallas Mavericks. Kyle Lowry bætti við 17 stigum. 10 fráköstum og 7 stoðsendingum fyrir Toronto sem vann báða leikina við Dallas á tímabilinu. Dirk Nowitzki var atkvæðamestur hjá Dallas-liðinu með 20 stig og 7 fráköst.
Kentavious Caldwell-Pope skoraði lykilkörfu á lokakaflanum í 93-92 útisigri Detroit Pistons á Miami Heat. Miami var mest 18 stigum yfir í leiknum en leikmönnum Detroit tókst að vinna sig inn í leikinn og tryggja sér sigur.
Reggie Jackson skoraði 18 stig fyrir Detroit en þeir Stanley Johnson og Caldwell-Popevoru báðir með 14 stig. Detroit hitti úr 15 af 29 þriggja stiga skotum sínum og skoraði 33 fleiri stig úr þristum en Miami. Chris Bosh var stigahæstur hjá Miami með 20 stig, Dwyane Wade skoraði 19 stig og miðherjinn Hassan Whiteside var með 16 stig og 16 fráköst.
Marc Gasol skoraði 19 stig fyrir Memphis Grizzlies í 104-90 sigri á Philadelphia 76ers og leikstjórnandinn Mike Conley var með 18 stig og 6 stoðsendingar. Courtney Lee bætti við 15 stigum, Zach Randolph skoraði 14 stig og Matt Barnes var með 12 stig og 10 fráköst. Jahlil Okafor skoraði mest fyrir 76ers liðið eða 18 stig en þetta var 29. tap liðsins í 30 leikjum á tímabilinu.
Úrslit úr öllum leikjum í NBA-deildinni í nótt:
Philadelphia 76ers - Memphis Grizzlies 90-104
Miami Heat - Detroit Pistons 92-93
Toronto Raptors - Dallas Mavericks 103-99
Denver Nuggets - Los Angeles Lakers 107-111
Staðan í NBA-deildinni
Körfubolti